138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[13:28]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Herra forseti. Hér er um nánast samhljóða grein og breytingartillagan varðandi 2. gr. málsins nema að hér er tekið á málum varðandi stjórnir einkahlutafélaga. Það sem ég tel vera lykilatriði í þessari grein er ákvæði varðandi kynjahlutföllin, að í stjórnum opinberra hlutafélaga og hlutafélaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skuli hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír í slíkum félögum skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%

Með þessari tillögu er verið að gæta að því að þetta verði ekki íþyngjandi fyrir einkahlutafélög og ég taldi það lykilatriði hvað það varðar að setja þetta ákvæði um einkahlutafélög að sett yrði ákveðið stærðarákvæði. Þess vegna segi ég já við þessu á sömu forsendum og ég tilgreindi varðandi 2. gr. málsins. Það skiptir máli að það sé alveg skýrt að það sé til (Forseti hringir.) hagsbóta fyrir samfélagið í heildina að bæði kynin (Forseti hringir.) komi að stjórn fyrirtækja.

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk í atkvæðaskýringum.)