138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

fundargerðir af fundum ráðherra með erlendum aðilum.

270. mál
[13:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um fundargerðir af fundum ráðherra með erlendum aðilum. Í ræðu á Alþingi 22. október sl. segir hæstv. utanríkisráðherra, með leyfi forseta:

„Ég vil upplýsa hv. þingmenn um það að mínir fundir eru allir skipulagðir fyrir fram, þeir standa í 20–60 mínútur. Þar er oft farið yfir fyrir fram ákveðin umræðuefni og lyftufundir og aðrir fundir í ýmsum skúmaskotum eru ekki taldir með. En frá miðju sumri held ég að ég hafi talað við nánast alla utanríkisráðherra Evrópusambandsins um þessi mál, við framkvæmdastjóra NATO nokkrum sinnum og marga fleiri ráðherra.“

Þarna er hæstv. utanríkisráðherra að vísa í samskipti sín vegna Icesave-málsins á þessum tíma sem um ræðir og einnig hafði hann upplýst í fyrri ræðu að hann hefði talað við a.m.k. 30 þjóðhöðingja beinlínis um Icesave-málið og 12–14 utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna. Það er tilefni fyrirspurnar minnar þar sem, eins og allir vita sem hafa fylgst með Icesave-umræðunni, mikið hefur verið kallað eftir gögnum. Varðandi þau gögn sem við höfum fengið er það yfirleitt þannig að við höfum ítrekað þurft að óska eftir þeim. Ég fór síðan á netvef utanríkisráðuneytisins og 2. nóvember er rakinn endalaus fundalisti yfir fundi ráðherra. Hér er verið að tala um fleiri tugi funda sem ráðherra hefur haldið og ég gæti kannski bætt við fyrirspurnina sem ég mun lesa rétt á eftir. Það virðist sem hæstv. utanríkisráðherra hafi átt endalausa fundi með alls konar fólki. Spurningin er þá þessi: Hverju hefur það skilað? Það væri fínt að fá álit hæstv. ráðherra á því.

Það sem vakir fyrir mér er að spyrja hæstv. ráðherra um hvort fyrir liggi fundargerðir af öllum þessum fundum sem tilteknar eru í fyrirspurn minni og er of langt mál að taka. Ef þær fundargerðir eru ekki til vil ég fá að vita hvers vegna þær voru ekki gerðar. Ef þessar fundargerðir eru til vil ég vita hvort til stendur að birta þær. Nú er ég ekki að væna hæstv. utanríkisráðherra um eitt eða neitt, til að fyrirbyggja allan misskilning. Ég verð með svipaða fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra í dag sem verður stundum ansi viðkvæmur fyrir því að ég kalli eftir gögnum. Hann segir mig væna sig um alls konar hluti. Ég vil taka sérstaklega fram að ég er ekki að því. Ég vil einfaldlega fá að vita hvort ekki sé skipulag á því varðandi alla þá fundi sem hæstv. ráðherra tiltók sérstaklega í ræðu sinni að væru fyrir fram skipulagðir og stæðu í 20–60 mínútur, að fundargerðir séu haldnar. Hvort ekki standi til að birta þær og gefa þingheimi kost (Forseti hringir.) á að sjá hvernig á þessum málum hefur verið haldið af hálfu hæstv. utanríkisráðherra.