138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

fundargerðir af fundum ráðherra með erlendum aðilum.

270. mál
[13:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhuga hennar á fundarsókn og fundarhöldum utanríkisráðuneytisins. Nú er það hlutverk utanríkisráðherra að hafa fundi með öðrum ráðherrum og halda málstað fram erlendis. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að ég hef átt skipulagða fundi, reyndar ekki við 12–14 eins og ég sagði í ræðu, heldur við 19 utanríkisráðherra, 3 þjóðhöfðingja. Þar að auki hef ég átt nokkuð sem kalla mætti samtöl, miðað við skilgreiningar hv. þingmanns á slíkum óformlegum fundum í annarri fyrirspurn sem hún hefur sent til mín sem skriflega fyrirspurn. Lengd þessara funda var yfirleitt í kringum 20 mínútur, það er alveg hárrétt. Tveir þeirra voru líklega töluvert skemmri, þrír þeirra voru lengri, einn 60 mínútur. Á öllum þessum fundum ræddu menn málefni sem tengdust Icesave og afstaða Íslands til þeirra var kynnt.

Ég hef gert mér far um að greina utanríkismálanefnd frá þessum fundum. Á þeim sjö fundum sem ég hef átt sem utanríkismálaráðherra með nefndinni hef ég fjórum sinnum farið yfir þessa fundi, þar af þrisvar sinnum töluvert ítarlega. Þar gátu fundarmenn spurt mjög frjálslega út í efni þessara funda undir þeim trúnaði sem lög mæla fyrir um störf nefndarinnar. Þeir fundir sem eru með erlendum ráðherrum eru yfirleitt í tengslum við einhverja stóra fundi þar sem margir ráðherrar eru saman komnir. Þetta eru trúnaðarfundir í umhverfi trúnaðar og þeir bera þess merki. Menn skiptast þar frjálslega á skoðunum, eru oft litríkir í orðavali, bæði á því viðfangsefni sem menn ræða, sömuleiðis á atburðum og jafnvel mönnum. Í skjóli þessa trúnaðar eru þessir fundir haldnir. Af þeim eru ekki teknar formlegar fundargerðir sem bornar eru undir báða aðila og samþykktar. Þegar ráðherra er einn, og ég hef margoft haldið fundi einn með öðrum ráðherrum, sér í lagi þegar þeir koma til heimsókna á Íslandi, eru engir punktar teknir. Þegar embættismenn eru á tvíhliða fundum eða stærri fundum eru gjarnan teknir niður punktar til minnis um það sem fram fór á fundum. Þar getur kannski um efni sem rætt var. En oftar en ekki eru þá sérstaklega teknar setningar eða yfirlýsingar, gjarnan innan gæsalappa, sem merkar þykja og hafa hrotið úr munni viðkomandi. Oft og tíðum eru það einhvers konar yrðingar sem tengjast mikilvægum málum sem til umræðu eru eða eru undir af Íslands hálfu, eins og t.d. afstaða til sjávarútvegsmála og ESB.

Varðandi þá þjóðhöfðingja sem ég hef átt fundi með eða rætt þessi mál með, voru það forseti Finnlands, Tarja Halonen, Lech Kaczynski, forseti Póllands, og loks Václav Klaus, forseti Tékklands. Þessa fundi sat ég með forseta Íslands. Hann skipulagði fundina og bar af þeim, eðli máls samkvæmt, veg og vanda. Ég var þar eini fulltrúi utanríkisráðuneytisins og það voru engar fundargerðir teknar þar og engir minnispunktar heldur af minni hálfu. Á þessum fundum með forsetunum öllum þremur voru málefni Icesave t.d. reifuð, minnst þó á fundunum með forseta Tékklands, Klaus. Honum var umhugað töluvert um þau mál sem þá bar hæst í samskiptum Tékklands við Evrópusambandið og leystust nú ekki alls fyrir löngu, eins og hv. þingmaður veit. Á fundunum með Halonen, forseta Finnlands, var rætt í þaula um Icesave, mál sem því tengdust og ekki síst norrænu lánin. Ég get upplýst hv. þingmann um að á þeim fundi fór ég fram á að ef í nauðir ræki væri hægt að grípa til þess að fá forseta Finnlands til að tala fyrir málstað Íslands, a.m.k. gagnvart sínu landi. Mest var samt rætt um Icesave á fundunum með forseta Póllands. Þar var honum auðvitað þökkuð liðveisla Pólverja sem var snöggtum örlátari að manni fannst en annarra þjóða ýmissa. Ég átti sömuleiðis tvíhliða fundi með 14 utanríkisráðherrum, auk þess einn fund þar sem tveir voru viðstaddir og sama gildir um þessa fundi. Að því er varðar síðan fund minn með Dominique Strauss-Kahn var til hans boðað með skipulegum hætti. En það var alveg klárt að það var óformlegur trúnaðarfundur þar sem menn ræddu stöðuna og reyndu að leita leiða til að leysa málin. Ég tel að sá fundur, ásamt fundinum sem hæstv. fjármálaráðherra átti með honum í Istanbúl, hafi átt töluverðan þátt í því að það tókst að greiða úr því.