138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

fundargerðir af fundum ráðherra með erlendum aðilum.

270. mál
[13:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en ég verð að taka undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, þau valda mér nokkrum vonbrigðum. Mér fannst t.d. ekki skýrt í svari ráðherrans hvort til stæði að birta eitthvað af þessum fundargerðum. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að ég er með aðra fyrirspurn fyrirliggjandi þar sem ég tiltek fundargerðir eða frásagnir, ég man ekki hvernig ég orðaði það, einmitt til þess að við færum ekki út í einhverjar hártoganir um að þetta væru formlegar fundargerðir. Ég hef unnið í stjórnsýslunni og ég veit að það eru teknir punktar þó að þeir séu ekki endilega bornir undir aðra.

Það sem vakir fyrir mér með þessari fyrirspurn er að sjá hvernig málstað Íslands hefur verið haldið á lofti. Ég verð að segja að svar hæstv. ráðherra svarar ekki þeirri spurningu. Að hæstv. utanríkisráðherra eigi eitthvert tveggja manna tal sem má ekki vitna í hjálpar mér ekki neitt. Það hjálpar mér ekki neitt við að komast að því hvernig hæstv. utanríkisráðherra hefur haldið málstað Íslands á lofti.

Við vitum núna hvar málið er statt, við sjáum hvaða samning var komið með heim. Okkur sem erum andvíg þessu máli finnst að það hefði verið hægt að gera betur. Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Telur hæstv. ráðherra að fundahöld hans — svo að ég orði það eins og einhver þáttarstjórnandi gerði — að það að hann rífi kjaft í útlöndum hafi orðið málinu til framdráttar? Hafa þessir ótal fundir sem taldir eru upp, 12–14, við þrjá þjóðhöfðingja á ákveðnu tímabili sem hæstv. ráðherra hefur nefnt hér í ræðu yfir höfuð gert eitthvert gagn, hæstv. forseti? Ég sé reyndar að það hafa verið miklu fleiri fundir. Það er spurningin sem (Forseti hringir.) vaknar eftir svar hæstv. ráðherra.