138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

kynning á málstað Íslendinga í Icesave-málinu.

284. mál
[13:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Við höldum hér áfram með sama mál. Í ljósi þess sem hæstv. utanríkisráðherra upplýsti um öll þau fundahöld sem hann hefur átt kemur næsta fyrirspurn mín sem eðlilegt framhald af svörum hans. Ég spyr hvort utanríkisþjónustunni hafi verið beitt til kynningar á málstað Íslendinga í þessu Icesave-máli, og spyr þá hvernig þeirri kynningu hafi verið háttað og hver áfallinn kostnaður sé við hana.

Ástæða þess að ég spyr er að mig grunaði að hæstv. ráðherra kæmi hér og segði að hann hefði átt alla þessa fundi og hefði beitt sér mjög mikið. Ég geri ekki lítið úr því. Ég er sannfærð um að hæstv. ráðherra hefur gert það eins vel og hann getur, ég vil bara fá að sjá skrifleg gögn. Ég kannski misnota aðstöðu mína hér og bið hæstv. ráðherra aftur um að svara hvort hann hyggist birta þessar fundargerðir og vísa til fyrri fyrirspurnar.

Varðandi fyrirspurnina um utanríkisþjónustuna vitum við að þegar mikið liggur við er utanríkisþjónustunni beitt og innan hennar höfum við á að skipa mörgum færum sérfræðingum. Við erum með sendiráð í Bretlandi og úti um alla í Evrópu þar sem við eigum í þessum ágreiningi og við vitum að þegar mikið hefur legið við og við höfum talið okkur eiga hagsmuna að gæta höfum við beitt utanríkisþjónustunni markvisst til kynningar, að ég nefni nú ekki mál eins og framboð okkar til öryggisráðsins sem ég vil á engan hátt lýsa sem sambærilega mikilvægu máli og þessu Icesave-máli. Til kynningar á framboðinu og til þess að afla framboði okkar fylgis var kostað tæplega 400 millj. kr. frá 1998 til 2008 samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu, að ég tali nú ekki um uppáhaldsviðfangsefni hæstv. ráðherra sem er Evrópusambandsumsóknin sem hann ætlar að verja a.m.k. þúsund milljónum króna til að afla fylgis.

Þess vegna spyr ég: Hefur utanríkisþjónustunni verið markvisst beitt til kynningar á málstað okkar? Þá þarf hæstv. utanríkisráðherra ekkert að eyða tíma sínum í þá fundi sem hann hefur átt, við höfum talað um það. Hvernig hefur þessari markvissu kynningu, sem vonandi hefur verið beitt, verið háttað og hverju hefur verið til kostað í þeirri kynningu? Það er mikilvægt að þetta komi fram vegna þess að í þessu stóra hagsmunamáli hljótum við Íslendingar að gera þá kröfu að öllum ráðum sé beitt, öll tiltæk vopn sem við höfum í vopnabúri okkar séu tekin fram máli okkar til stuðnings.