138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

hótanir, Evrópusambandið og Icesave.

303. mál
[14:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er eins og að fara yfir læk eftir vatni að spyrja mig að þessu þegar hæstv. fjármálaráðherra situr í salnum og hefur raunar kvatt sér hljóðs. Ég tel að hv. þingmaður hefði miklu frekar átt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra en mig hvað hann meinti með þessu. Hv. þingmaður rifjar það réttilega upp að ég hef átt sæti í þremur síðustu ríkisstjórnum á meðan þessi ósköp öll hafa gengið yfir. Af því að ég sat hér undir ræðu hæstv. fjármálaráðherra og dáðist að málsnilld hans þegar hann flutti hana á sínum tíma tók ég líka eftir því að hann fékk vart málsfrið fyrir frammíköllum í salnum þegar hann hafði látið þessi orð úr sér og hann sagði, ef ég man rétt:

Þetta voru nú engin ósköp ef það verður til þess að róa þingheim.

Bersýnilega hefur honum þegar vatt fram ræðunni kannski ekki þótt tilefnið vera jafngrellt og það sem þingmönnum þótti með frammíköllum sínum í salnum.

Ég get ekki fyrir víst upplýst nákvæmlega hvað hæstv. fjármálaráðherra átti við en bíð eftir ræðu hans á eftir. Það eina sem mér kemur til hugar er það atvik sem hefur reyndar bergmálað í ræðum ýmissa þingmanna hér, m.a. núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma, t.d. í ræðu sem hann hélt 5. desember 2008 þar sem hann talaði um möguleikana á því að mótaðilar okkar í þessari deilu mundu reyna að beita afli sínu til að ná fram uppsögn EES-samningsins. Á bak við þetta lá bréf sem Bretar sendu framkvæmdastjórn Evrópusambandsins 8. október 2008. Þar kvörtuðu þeir undan því að Íslendingar hefðu með aðgerðum sínum dagana á undan brotið 40. og 41. gr. EES-samningsins og óskuðu eftir því að framkvæmdastjórnin gripi til þeirra aðgerða sem hún getur ef hún er því sammála. Samstundis og framkvæmdastjórnin fékk þetta bréf sendi hún það áfram til ESA. Síðan hefur ekkert af því spurst og enginn viljað af því vita, hvorki Bretar, framkvæmdastjórnin né ESA. Þetta voru sem sagt lyktir málsins. Við höfum aldrei heyrt af því meira.

Ég tel að það sé þetta sem hæstv. fjármálaráðherra hugsanlega kann að hafa átt við í ræðu sinni. Ef það er ekki það er ég bara, eins og maður sagði í gamla daga, fullkomlega lens. Þetta á hins vegar ekki að koma hv. þingheimi algjörlega á óvart vegna þess að þetta bréf (Gripið fram í.) var rætt í utanríkismálanefnd að því er ég best veit skömmu síðar. Ég þori þó ekki alveg að fullyrða það, en ég veit að það var líka rætt í viðskiptanefnd í sumar. Ef ég man rétt var þetta tilefni fréttaflutnings einhvern tímann á miðju sumri. Utanríkisráðuneytið brást þannig við að það reyndi að afla upplýsinga um það þegar menn heyrðu af þessu og eftir krókaleiðum náði það þessu bréfi. Við höfum þetta bréf. Ýmsum þingmönnum í nefndum hefur verið sýnt það undir þeim trúnaði sem á viðkomandi nefndum hvílir en að því er ég best veit hefur bréfið ekki verið birt opinberlega. Í tilefni af fyrirspurn hv. þingmanns lét ég senda það til utanríkismálanefndar í morgun þannig að aðrir nefndarmenn í utanríkismálanefnd gætu þá líka kynnt sér það sem utanríkisráðherra telur a.m.k. tilefni málsins.