138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

hótanir, Evrópusambandið og Icesave.

303. mál
[14:21]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst alltaf hæstv. utanríkisráðherra takast mjög vel upp þegar hann fer út í sínar bókmenntalegu túlkanir eins og þegar hann fór að reyna að túlka hvað þetta mál snerist um. Niðurstaða hans var auðvitað sú að gera sem minnst úr hlut Evrópusambandsins í þessu máli. Það eina sem hefði gerst væri það að Evrópusambandið hefði sent eitt lítið lettersbréf til einhverra sem ekki tóku mark á því nema auðvitað hæstv. fjármálaráðherra sem tók þetta þannig að um væri að ræða grímulausar hótanir af hálfu Evrópusambandsins og flutti fyrir því ágætisrök áðan. Hann sagði okkur frá því að lönd innan Evrópusambandsins, Bretland og Holland, hefðu haft uppi tilburði til þess að segja upp okkar mikilvægasta utanríkispólitíska samningi, EES-samningnum, til að reyna að einangra Íslendinga, til að reyna að gera okkur allt eins erfitt fyrir og hægt væri. Ef þetta eru ekki grímulausar hótanir, hvað er það þá?

Ég er undrandi á því að hæstv. utanríkisráðherra reyni að gera lítið úr hlut Evrópusambandsins, bara af því að hann langar svo mikið til þess að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og hann er í sinni feigðarför við (Forseti hringir.) að reyna að afla því fylgis að Ísland gerist aðili að því.