138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

flutningur verkefna til sýslumannsins á Patreksfirði.

125. mál
[14:32]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurn hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um hvers vegna verkefni við umsýslu með meðlagsgreiðslum í landinu í heild voru ekki flutt til sýslumanns á Patreksfirði eins og fyrirheit voru gefin um í skýrslu svokallaðrar Vestfjarðanefndar. Það er mikilvægt að það komi strax fram að verkefni á sviði almannatrygginga þar með talin milliganga Tryggingastofnunar á meðlagsgreiðslur voru færð frá heilbrigðisráðuneytinu til félags- og tryggingamálaráðuneytisins um áramótin 2007–2008 en á sama tíma var Innheimtustofnun sveitarfélaga færð frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu til samgönguráðuneytisins. Þegar þessar niðurstöður voru kynntar á árinu 2007 hófst samráð milli þeirra stofnana sem þá fóru með þessi mál. Samkvæmt þeim upplýsingum sem tiltækar eru í félags- og tryggingamálaráðuneytinu komust Tryggingastofnun ríkisins og Innheimtustofnun sveitarfélaga að þeirri sameiginlegu niðurstöðu á þeim tíma að flutningur umsýslu við greiðslur og innheimtu meðlaga mundi ekki skila því hagræði sem að er stefnt með tillögu nefndarinnar og því stæðu ekki rök til að hverfa frá núgildandi fyrirkomulagi. Niðurstaða stofnunarinnar mun hafa verið rökstudd og að henni fenginni var ekkert aðhafst frekar í málinu af hálfu þeirra ráðuneyta sem með ákvörðunina fóru á þeim tíma.

Meðal þess sem kemur fram í skýrslu Vestfjarðanefndar er ákveðinn misskilningur um að meðlagsgreiðslur snerti ekki bætur almannatrygginga og því sé ekki nauðsynlegt að Tryggingastofnun greiði þær út. Það eru hins vegar mikil og margslungin tengsl á milli þeirra meðlagsgreiðslna og þeirra bótaflokka almannatrygginga sem Tryggingastofnun ríkisins annast og verður að teljast varhugavert að slíta þau tengsl í sundur. Það ber að hafa í huga að meðlagsgreiðslur standa lengi yfir, breytingar í kjölfar skilnaða og forsjárbreytingar hafa áhrif á allar greiðslur almannatrygginga sem eru tengdar framfærslu barna og fjölskylduhögum og er nauðsynlegt að hafa yfirsýn yfir það við afgreiðslu mála. Ef umsýsla með milligöngu meðlagsgreiðslna yrði færð frá Tryggingastofnun er talið sérstaklega hætt við að draga mundi úr því hagræði sem felst í því þegar stofnunin hefur milligöngu um meðlagsgreiðslur og hið meðlagsskylda foreldri öðlast barnalífeyri því að þá er stofnuninni heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslunnar m.a. vegna sama tímabils. Einnig má nefna tengsl meðlagsgreiðslna við barnalífeyri sem kemur í stað meðlags við andlát foreldris, greiðslu mæðra- og feðralauna, framlög og barnalífeyri vegna náms- og umönnunargreiðslna vegna fatlaðra og langveikra barna.

Ég tel því mikilvægt nú að hafa allar klær úti við að draga úr rekstrarkostnaði hins opinbera og það hefur verið höfuðmarkmið okkar við endurskoðun á hlutverki stofnana félags- og tryggingamálaráðuneytisins á liðnum mánuðum. Því er ekki að neita að augu okkar hafa auðvitað beinst að Innheimtustofnun sveitarfélaga sem ég tel langeðlilegast að verði sameinuð Tryggingastofnun ríkisins. Ég er hins vegar ekki viss um að það sé í anda þeirra sparnaðarkrafna sem að okkur beinast að slíta upp greiðslukerfin og búa til mörg greiðslukerfi á sama sviði, heldur sé betra að nýta eins vel og kostur er eitt miðlægt greiðslukerfi sem sinni öllum greiðslum sem snerta almannatryggingar eða tengd verkefni. Ég held þess vegna ekki að þessi hugmynd frá árinu 2007, þótt hún hafi auðvitað haft það góða markmið að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum, sé endilega rétta lausnin við núverandi aðstæður.

Hitt er aftur annað mál að það er mjög mikilvægt að finna leiðir til þess samhliða aðhaldi í rekstri hins opinbera, endurskipulagningar á stofnanauppbyggingunni og sameiningar stofnana, að tryggja verkefni sem geti verið áfram í héraði. Ég vil láta það koma fram að í öll þau verkefni sem nú eru á vegum undirstofnana félags- og tryggingamálaráðuneytisins úti um land eru vistuð þar með mikilli prýði og kostnaður af vistuninni þar er ekkert meiri en eðlilegt getur talist. Í öllum endurskoðunaráformum um endurskipulagningu á stofnunum göngum við út frá því að þessi starfsemi haldist óbreytt. Ég held að það skipti þess vegna miklu máli að finna verkefni sem skapa raunverulega aukin verðmæti. Ég bendi t.d. á að ákveðnir verkþættir í verkum Innheimtustofnunar sveitarfélaga hafa verið fluttir til Ísafjarðar. (Forseti hringir.) Ég held að það þurfi að halda áfram á þessari leið og styðja við verkefnið þar sem er tryggt (Forseti hringir.) raunverulega að ávinningur felist af vistun þeirra á tilteknum stöðum.