138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

204. mál
[14:47]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég veit að hann hefur einlægan áhuga á þessum málaflokki og ég fagna því og hversu vel hann leggur til hans. Það er auðvitað mikilvægt fyrir okkur að standa vörð um velferð barna á þessum erfiðu tímum en við skulum samt ekki ofmeta vandann. Af því umtalsverð fjölgun barnaverndartilkynninga hefur verið í umræðunni höfum við látið gera sérstaka athugun á því. Ég held að það sé ágætt hér í upphafi að gera grein fyrir því að niðurstaða úttektar á þessari fjölgun er sú að hún sé í samræmi við þróun undanfarinna ára og það sé ekki ástæða til að túlka hana með sérstökum hætti. Það er okkur auðvitað fagnaðarefni en við bíðum frekari rannsóknarniðurstaðna um hvað nákvæmlega valdi því að á undanförnum árum hefur nokkuð jafnt og þétt verið um að ræða fjölgun á barnaverndartilkynningum.

Eins og hv. þingmaður rakti er þessi ályktun frá 2007 afskaplega metnaðarfull og í henni voru fjölmargir þættir sem hann rakti ágætlega. Strax var settur á fót samráðshópur fulltrúa félagsmála-, dómsmála-, fjármála-, heilbrigðis- og menntamálaráðherra og fulltrúi félags- og tryggingamálaráðherra er formaður hópsins. Þessi samráðshópur hóf störf 27. ágúst 2007 og hefur starfað síðan, haldið 26 reglubundna fundi og síðasti formlegi fundur var haldinn 12. nóvember síðastliðinn. Aðgerðaáætlunin snýr að öllum þessum ráðuneytum sem koma að málinu. Til viðbótar hafa svo verið haldnir samráðsfundir með ýmsum félagasamtökum sem sinna málefnum barna, svo sem Barnaheill, Heimili og skóla, Blátt áfram, Þroskahjálp, Sjónarhóli, einnig Stígamótum, Vímulausri æsku, Foreldrahúsi og Lýðheilsustöð. Fjölmörg verkefni er hægt að nefna en ég ætla að stikla hér á stóru.

Þáttaskil urðu árið 2008 þegar Barnaverndarstofa fékk 50 millj. kr. fjárframlag í svokallaða fjölkerfameðferð, eða Multy System Therapy, sem veitt er á heimilum barna og ungmenna sem annars hefðu vistast á stofnunum. Árið 2009 var fjárframlagið aukið um 17,5 millj. kr. og þetta er liður í að draga úr stofnanameðferð barna og ungmenna sem glíma við hegðunar- eða vímuefnavanda. Árangurinn af þessu er þegar að koma í ljós. Við erum að loka og draga stórlega úr vistun ungmenna fjarri heimilum sínum sem er arfur liðins tíma og er mjög mikilvægt að binda enda á.

Umtalsverðir styrkir hafa verið veittir til Foreldrahúss, Vímulausrar æsku og Fjölskyldumiðstöðvarinnar til að vinna með ungmennum og foreldrum þeirra, bæði í forvarnaskyni og eftirmeðferð eftir stofnanadvöl. Strax í upphafi var lögð mikil áhersla á að stytta biðlista, bæði hjá BUGL og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. BUGL hefur fengið 150 millj. kr. og Greiningarstöðin 140 millj. kr. til þessa verkefnis og þar hefur náðst umtalsverður árangur.

Menntamálaráðuneytið vinnur að víðtækum endurbótum á námskrá á öllum skólastigum og bættri þjónustu við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra. Í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda frá árinu 2008 er að finna fjölmörg atriði sem lúta að sérstökum þörfum innflytjendabarna, m.a. á sviði menntamála, barnaverndar, málefna fatlaðra og heilbrigðisþjónustu.

Það er líka rétt að minna á nýfrágengið samkomulag milli félags- og tryggingamálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins um sérstakt átak í þjónustu við langveik börn og börn með ADHD-greiningu og fjölskyldur þeirra. Á næsta ári munum við verja í þetta verkefni 100 millj. kr. í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Verkefnið á að standa í þrjú ár og við göngum frá því að unnt verði að tryggja fjármagn til þess með sama hætti á fjárlögum á næsta og þarnæsta ári. Það verður pottur sem hægt verður að sækja í til verkefna fyrir þessi börn. Auðvitað horfum við síðan í stórauknum mæli með menntamálaráðuneytinu á sérstakar þarfir þessa hóps. Eitt af því sem við erum að vinna með núna sem lausn á langtímaatvinnuleysi ungmenna eru sérstök menntaúrræði fyrir ungmenni sem hafa ekki fengið þjónustu í skólakerfinu vegna erfiðleika sinna, vegna ADHD-greiningar og ýmissa erfiðleika við að finna sér fótfestu í námi hingað til.

Í tannheilbrigðismálum hafa forvarnir verið efldar m.a. með eftirliti og forvörnum hjá tannlæknum vegna þriggja, sex og tólf ára barna foreldrum að kostnaðarlausu.

Tími minn er að renna út en ég held að ef horft er af allri sanngirni á þessa áætlun, hversu metnaðarfull hún var og (Forseti hringir.) hvenær hún var samþykkt á árinu 2007, sé óhætt að segja að okkur hafi tekist afskaplega vel við framkvæmd hennar. Við munum að sjálfsögðu ekki láta staðar numið núna heldur vinna áfram af fullum krafti. (Forseti hringir.)