138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

204. mál
[14:55]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu varðandi þessa áætlun. Ég held að hún sé ekki til vitnis um að við höfum farið einhverju offari árið 2007. Ég held þvert á móti að þessi áætlun sé fullkomlega raunhæf. Þótt hún hafi gert ráð fyrir ákveðnum fjárútlátum eru þau ekkert umfram getu samfélagsins í meðalári. Það kann að vera að við þurfum að fresta einhverju agnarlítið núna en okkur gengur ágætlega að vinna eftir henni miðað við það mikla aðhaldsstig sem við erum þó að sýna í ríkisrekstrinum í velferðarmálunum og eins og við öll náttúrlega vildum helst geta sloppið við.

Hér eru nefnd álitamál um réttarstöðu feðra. Ég vil geta þess að nefnd um stöðu foreldra í ólíkum fjölskyldugerðum skilaði áliti í vor og þar fór fram mikil vinna í þessu máli. Ein af niðurstöðum þessarar nefndar er hugmyndir um nýtt barnatryggingakerfi þar sem börn láglaunafólks fái stuðning óháð því hvert tekjuform foreldra þeirra er, sem ég held að sé mikið framfaraskref og við stefnum að því að hrinda í framkvæmd um næstu áramót, þ.e. eftir ár. Það vannst ekki tími til þess að vinna það saman við barnabótakerfið núna en það munum við gera um næstu áramót. Ég veit að í dómsmálaráðuneytinu er verið að vinna að öðru leyti að endurbótum á forsjárlöggjöfinni.

Varðandi lengingu á fæðingarorlofinu vil ég sérstaklega fagna því að félags- og tryggingamálanefnd er horfin aftur til þeirrar upphaflegu tillögu sem ég lagði fram og hafði sterka sannfæringu fyrir að væri miklu betri tillaga en sú sem varð niðurstaða af samráði í ríkisstjórn og ég lagði fram hér í frumvarpi. Ég er ekki sammála því að við séum búin að skera fæðingarorlofið þannig niður að við þurfum að líta svo á að við völdum þar óbætanlegu tjóni. Við getum vissulega ekki gengið lengra en ég held að það sé hins vegar mikilvægt að horfa á fjármögnun þessa kerfis í samhengi við hvað annað er hægt að leggja á tryggingagjaldið. Nú þegar er búið að hækka það svo mjög (Forseti hringir.) að það er farið að ógna atvinnustigi og uppbyggingu atvinnustigs í landinu. Við höfum lagt höfuðáherslu á (Forseti hringir.) að bjarga fólki við þær erfiðu aðstæður sem eru í atvinnuleysinu og ég held að því miður verði ekki meira lagt á þennan gjaldstofn einmitt núna en við þurfum (Forseti hringir.) auðvitað að finna langtímafjármögnun fyrir fæðingarorlofskerfið.