138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

uppbygging dreifnáms og fjarnáms.

139. mál
[15:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Eygló Harðardóttur. Ég vil fyrst biðjast forláts á því að skriflegt svar hafi ekki borist enn þá við fyrirspurn hv. þingmanns og mun ég kanna afdrif þeirrar fyrirspurnar hið snarasta.

Hvað varðar stefnu um uppbyggingu dreif- og fjarnáms þá ræddum við þetta á dögunum í utandagskrárumræðu hér í þinginu. Þar kom fram að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ekki gefið út opinbera dreif- og fjarnámsstefnu heldur hefur hugsunin verið sú að dreifnám sé einn möguleiki sem skólar nýti sér í sínum kennsluaðferðum til að bæta þjónustu sína við nemendur og almenning. Fjarnám varð upphaflega til hér á landi til þess að efla aðgengi fólks að námi og gefa því möguleika á að læra sjálfstætt, óháð búsetu og fjárhagslegri stöðu eða persónulegum aðstæðum.

Almennt hefur áherslan verið sú að fjarnám sé byggt upp sem hluti af almennu námsframboði hvers skóla og skólar hafi svigrúm til að þróa fjarnám eftir eigin hentugleika. Lögð hefur verið áhersla á samstarf skóla um þróun námsframboðs, kennslufræði, tækni- og stoðþjónustu. Menntamálaráðuneytið hefur stutt við þróun grunngerða fyrir fjar- og dreifnám, upplýsingakerfi, þróun kennslufræði, stoðþjónustu o.s.frv.

Menntamálaráðuneytið setti á sínum tíma fram stefnu um dreif- og fjarnám í tengslum við byggðastefnu og hefur staðið fyrir stofnun þekkingarsetra á nokkrum stöðum á landinu þar sem veitt er stoðþjónusta við nemendur vegna fjar- og dreifnáms. Einnig hefur ráðuneytið beint því til allra háskóla að þeir setji sér stefnu um fjarnám og staðið fyrir verkefni í samstarfi við Símenntunarmiðstöðina, þróun netháskóla þar sem kerfisbundið verður byggt upp námsframboð í fjar- og dreifnámi og þjónusta við nemendur á þessu sviði aukin. Það kom líka hér fram um daginn í utandagskrárumræðum að háskólar sem eru á landsbyggðinni hafa staðið sig betur í því að bjóða upp á námskeið sín í fjarnámi en háskólarnir hér á höfuðborgarsvæðinu, sem sýnir kannski meiri skilning þar á þessari tegund náms.

Af því hv. þingmaður kallar eftir stefnu minni höfum við að undanförnu unnið að því í ráðuneytinu að kortleggja umfang og stöðu fjarnáms og fyrirhuguð er úttekt á gæðum fjarnáms í framhaldsskólum. Fjarnám í framhaldsskólum er með mismunandi hætti og hefur þróast á forsendum hvers skóla. Mismunandi er t.d. hversu mikið eða hvort nemendur hitta kennara eða aðra nemendur. Í einhverjum tilfellum er þetta eingöngu unnið í námsumhverfi rafrænnar kennslu þannig að forsenda fyrir því að hægt sé að vinna áfram einhverja stefnumótun er að kanna það hvernig hinar ólíku aðferðir gefast í fjarnámi og dreifnámi því að þetta er með mjög mismunandi hætti.

Í fyrsta lagi munu sem sagt verða skoðuð gæði kennslu og þjónustu sem fjarnámsnemendur fá. Í öðru lagi verði kannað hvort og hvernig fjarnám á vegum framhaldsskóla styður við þróun námshátta í hverjum skóla. Í þriðja lagi hvernig fjarnám nýtist eða getur nýst nemendum sem eru í staðbundnu námi. Jafnhliða þeirri vinnu er mikilvægt að huga að auknu framboði fyrir nemendur. Þegar þessi úttekt liggur fyrir tel ég ástæðu til að skoða frekari stefnumótun og kalla jafnvel til starfshóp eins og hv. þingmaður spurði um hér í utandagskrárumræðu þegar þessi gögn liggja fyrir því að ég held að það sé alveg ljóst að þetta er unnið á mjög mismunandi hátt milli skóla.

Hér var vikið að niðurskurði og hann er erfiður. Það eru engar ákvarðanir auðveldar í þeim efnum en það sem var gert var að fara sérstaklega í viðbótarþjónustu sem ekki telst til kjarnaþjónustu. Þess vegna var sérstaklega skorið niður í fjarnámi og þeirri viðbótarþjónustu fyrir utan stoðkostnað sem var einnig skorinn niður. Við teljum hins vegar að niðurskurðurinn gefi tilefni til þess að skoða uppbyggingu fjarnámsins með kerfisbundnari hætti en verið hefur. Uppgangur fjarnáms hefur verið mikill á undanförnum árum. Fleiri nemendur kjósa að stunda námið á þennan hátt. Það skiptir því miklu máli að gera þá úttekt sem ég hef þegar nefnt og við skoðum hvort einhverjum samlegðaráhrifum sé unnt að ná fram, t.d. með því að vinna betur saman og efla þannig námsframboð þannig að hægt sé að leggja þar saman krafta. Fjarnám er auðvitað lykill fyrir margt vinnandi fólk til að komast í nám með vinnu og ég vil nefna það sérstaklega að meiri hluti nemenda í fjarnámi eru konur og meðaltalsnemandinn lýkur fimm til sex einingum á önn.

Það liggur alveg fyrir að aðgengi nemenda á framhaldsskólastigi að fjarnámi verður takmarkaðra en áður með þeim niðurskurðartillögum sem nú liggja fyrir. Við höfum hins vegar lagt áherslu á að nemendur í fámennum skólum, sem taka sérhæfða áfanga sem ekki eru í boði í þeirra skóla í fjarnámi, eigi þess áfram kost. Í einhverjum tilfellum mun niðurskurður hægja á námsframvindu framhaldsskólanemenda en sumir skólar hafa brugðið á það ráð að takmarka einingafjölda nemenda í fjarnámi sem hefur þessar afleiðingar.

Á háskólastigi hefur fjarnám verið með ólíkum hætti milli skóla. Við beinum niðurskurðartillögum þeirra ekkert sérstaklega að fjarnámi, það liggur í raun og veru hjá skólunum sjálfum að útfæra það, þannig að við sjáum þetta helst (Forseti hringir.) hjá framhaldsskólunum.

Ég mun koma nánar að ýmsum atriðum um þetta í mínu seinna innleggi hér.