138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

uppbygging dreifnáms og fjarnáms.

139. mál
[15:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held reyndar að það hljóti að vera svo að kostnaður sé mismikill milli skóla líka, þ.e. staðnemar eru misdýrir milli skóla og fjarnámsnemendur eru líka misdýrir milli skóla og fer auðvitað eftir umfangi námskeiða og þeim búnaði sem notaður er hversu mikið nám er í boði. En þetta kemur vonandi fram sem fyrst í svari við fyrirspurn.

Ég vil bara segja að lokum, út af fyrirspurn hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, um frumvarpið sem nú liggur fyrir. Það snýr að gjaldtökuheimildum í kvöldskóla og miðar að því að nýju lögin sem voru samþykkt 2008 og tóku gildi núna í haust — lagt er til að hverfa tímabundið aftur til eldri laga og auka gjaldtökuheimildir til fyrra horfs. Það er til að koma til móts við þann niðurskurð sem nú er, þ.e. að nemendur geti borgað allt að þriðjungi eins og var í eldri lögum fyrir nám í kvöldskóla, og þetta kemur ekki síst fram vegna athugasemda frá þeim sem hafa staðið fyrir kvöldskólum hér. Þannig að frumvarpið liggur fyrir þinginu og ef það gengur eftir þýðir það meiri byrðar á nemendur að sjálfsögðu en þar af leiðandi verður væntanlega hægt að halda uppi framboði á námi í kvöldskóla.

Ég vil bara ítreka það að við förum núna í úttektina sem ég nefndi hér áðan og stefnumótun í framhaldinu. Ég hef mikinn áhuga á því að skoða hvaða leiðir er hægt að fara til að koma til móts við menntunarþarfir fólks, ekki síst með tilliti til jöfnunar. Það eru uppi hugmyndir um að koma upp samstarfsneti skóla og annarra fræðsluaðila þar sem skólarnir vinna saman að því að kortleggja þarfir fyrir menntun og geta í framhaldi af því komið sér saman um að auka frekar námsframboð í fjarnámi, ná fram samlegðaráhrifum og auka um leið námsframboð og auka um leið hagkvæmni þannig að hægt sé að auka framboð í fjarnáminu.

En þetta liggur vonandi fyrir á næstunni og ég á von á því að skriflegt svar berist mjög bráðlega.