138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

námslán fyrir skólagjöldum í erlendum háskólum.

224. mál
[15:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Önnu Pálu Sverrisdóttur þessar ábendingar. Eitt af því sem hlýtur að verða skoðað er lántaka annars vegar fyrir grunnnám og hins vegar framhaldsnám. Við munum afla gagna um hvernig því hlutfalli er háttað. Mig rennir í grun að það séu ólík hlutföll milli skólagjalda erlendis og innan lands hvað það varðar. Ég legg áherslu á að við flýtum þessari vinnu og skoðum þetta vel og eins og ég nefndi í fyrra svari mínu er hægt að fara ólíkar leiðir í þessum efnum. Við þurfum sennilega að vega og meta hvernig þær koma út fyrir meginþorra landsmanna og reyna auðvitað að ná einhverjum sparnaði fram með sem minnstum skaða fyrir námsmenn.

Ég vil að lokum ítreka að það er auðvitað mjög mikilvægt að íslenskir námsmenn haldi áfram að sækja nám sitt erlendis. Af þeim sökum höfum við lagt áherslu á að halda áfram þátttöku í öllum alþjóðlegum menntaáætlunum. Við höfum lagt áherslu á að ræða þessi mál á alþjóðlegum vettvangi og ég nefni sem dæmi norrænu styrkina sem voru veittir núna í ár og verða aftur veittir næsta ár til námsmanna í námi á Norðurlöndum. Um það bil 289 námsmenn fengu þessa styrki sl. sumar og von mín er sú að þetta hafi hjálpað þeim til að halda áfram náminu. Þarna er um að ræða námsmenn sem höfðu kannski ekki mikil færi á að koma heim til starfa í því atvinnuástandi sem hér er og gátu með þessu móti verið áfram á sínum stað og haldið áfram námi. Við erum mjög meðvituð um mikilvægi þess að íslenskir nemendur haldi áfram að sækja sér menntun og þekkingu erlendis.