138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

fornleifarannsóknir og menningartengd ferðaþjónusta í Mosfellsdal.

235. mál
[15:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, fyrir þessi svör. Það er ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra er í tengslum og viðræðum við forsvarsmenn verkefnisins eða prófessorinn Jesse Byock. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra, sem er ljóst, að á næstu árum mun fyrst og síðast vinna við þetta verkefni felast í úrvinnslu þess sem þegar hefur verið grafið upp og þegar hefur verið skoðað þannig að sú ábending hæstv. ráðherra í viðræðum við forsvarsmenn verkefnisins að þeir sæki í rannsóknasjóði þessu verkefni til styrktar er kærkomin ábending.

Ég held að það sé í sjálfu sér ekki margt annað um þetta að segja. Ég þakka líka hæstv. ráðherra fyrir hugmyndir að því hvernig hugsanlega mætti og hægt væri að tengja hús skáldsins að Gljúfrasteini, þar sem skáldið Halldór Kiljan Laxness bjó lengstum og flestir þekkja sem einn fremsta rithöfund þjóðarinnar, og svo aftur þær minjar sem hafa vísun, eftir því sem fræðimennirnir telja, í minjarnar að Hrísbrú og að Skeggjastöðum og niður við Leirvoginn, í sögurnar okkar sem við teljum líka að skipti máli fyrir menningararfinn, fyrir þjóðarstoltið, fyrir ræturnar sem við viljum byggja á í framtíð og nútíð.