138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

listnám í grunn- og framhaldsskólum.

236. mál
[15:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra kærlega fyrir viðamikil og góð svör. Það er ljóst að þessir frumkvöðlar, Sigrún Grendal og Árni Sigurbjarnarson, hafa ýtt úr vör skemmtilegu verkefni sem er orðið að skýrslu, það er orðið að viðamikilli könnun um kortlagningu listfræðslu á Íslandi innan hins hefðbundna skólakerfis sem og utan þess. Það er líka afar mikilvægt, og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja í þýðingu á þessari skýrslu vegna þess að ekki er síður mikilvægt fyrir þá sem starfa að þessum málum að hafa þetta aðgengilegt á sínu eigin tungumáli.

Mig langar líka að beina því til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að listfræðsla tengist ekki eingöngu því að fólk nemi og skynji heldur hefur það sýnt sig, m.a. í vinnu með alzheimersjúklingum að ýmsum listum og þá sérstaklega sönglistinni, að tengsl á milli menningargeirans og heilbrigðisgeirans geti líka skipt máli til að þeir sjúku geti fylgst með á þennan hátt. Væri því fróðlegt að huga að því hvernig hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra gæti séð listfræðslu almennt tengjast námi fólks, ekki bara innan listfræðslunnar heldur hugsanlega líka innan heilbrigðisgeirans til að tengja þetta enn frekar fólki til ánægju og yndisauka.