138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

vaxtabætur.

234. mál
[15:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka það fram að ég tel hugleiðingar hv. þingmanns um þetta mál alveg fyllilega réttlætanlegar og það er vel skiljanlegt að þessi sjónarmið komi upp. Það er hins vegar, eins og ég tel mig hafa rökstutt í fyrra svari mínu, ekki alveg einfalt mál að hverfa frá því fyrirkomulagi sem er í dag. Það þyrfti í öllu falli að undirbúa það vel og sjá fyrir hvernig hægt væri eftir sem áður að afmarka þau tilvik ef menn opnuðu fyrir fasteignaveðlán sem væntanlega yrðu þá frá öðrum aðilum en Íbúðalánasjóði og til framkvæmda sem uppfylltu þau skilyrði að vera meiri háttar endurbætur á íbúðarhúsnæði en ekki bara venjulegt viðhald eða minni háttar lagfæringar, sem ekki hefur verið ætlunin að nytu vaxtabótaréttarins sem fyrst og fremst er í grunninn hugsaður til að auðvelda mönnum að afla húsnæðisins sjálfs við kaup á íbúð eða byggingu. En ég fellst alveg á að þau sjónarmið sem hér hafa komið fram og eru fyllilega skoðunarverð og ég skal hugleiða það hvort ástæða sé til að skoða það að setja þetta í einhverja nánari skoðun.