138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

fundargerðir af fundum um Icesave-málið.

269. mál
[15:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er mikilvægt að það sé alveg skýrt að ekki var skipuð samninganefnd eftir að Alþingi afgreiddi sín lög 28. ágúst sl. Gert var nákvæmlega það sem í lögunum er mælt fyrir um, að kynna Bretum og Hollendingum niðurstöðu Alþingis. Það var gert með því að æðstu embættismenn viðkomandi ráðuneyta og aðstoðarseðlabankastjóri voru sendir til að kynna sínum líkum málsefnið. Engar fundargerðir voru ritaðar hvorki á þessum fundum né þeim fundum eða í þeim samskiptum sem áttu sér stað í framhaldinu. Eftir fyrsta fundinn var tekið saman minnisblað sem fyrst og fremst var til mín, til að upplýsa mig um það sem þar hafði farið fram og það var síðan andlag kynningar á málinu í ríkisstjórn og í fjárlaganefnd Alþingis. Þetta minnisblað er, eins og kunnugt er og víðfrægt, hv. þingmönnum aðgengilegt.

Niðurstaða viðræðnanna kemur síðan fram í samningnum og þeim gögnum sem honum fylgja. Að mér best vitandi liggja engar fundargerðir eða hliðstæð gögn fyrir önnur en þau sem nefnd hafa verið og frammi liggja. Það er svarið. Ekki er um að ræða fundargerðir eða önnur gögn, svo ég viti til, sem ekki hafa verið gerð aðgengileg fyrir þá sem hafa rannsakað málið.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður hvort til séu fundargerðir eða skriflegar frásagnir af þeim allmörgu fundum sem sá er hér stendur átti í Istanbúl um Icesave-málið eða annað. Svarið er nei og ég vísa m.a. í því sambandi til þess sem hæstv. utanríkisráðherra sagði fyrr á fundinum að almennt er ekki venjan að ritaðar séu fundargerðir á slíkum fundum ráðherra. Eftir atvikum taka viðstaddir embættismenn niður minnispunkta í kompur ef eitthvað er sem ástæða þykir til að halda þannig til haga. Eðli þessara samskipta og funda er þó slíkt að ekki er venja að ritaðar séu formlegar fundargerðir enda mundi það í fyrsta lagi kalla á að báðir aðilar kæmu sér saman um þá fundargerð og eftir atvikum staðfesta hana áður en hún yrði viðurkennd sem fundargerð. Það mundi líka breyta nokkuð eðli þessara funda því oft er ýmislegt rætt á þessum fundum sem ekki er ætlunin að vitnað sé til eða komist á prent. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður þekki þetta nokkuð af reynslu sinni og kynnum af þessum málum og ég get vísað að mestu leyti til þess rökstuðnings sem fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra sem svaraði mjög skyldum fyrirspurnum um þann ótölulega fjölda funda af þessu tagi sem hann á.

Þessir fundir eru auðvitað mismunandi og við mismunandi aðila, misformlegir í mismiklum trúnaði eins og gengur, en þetta er hin almenna regla. Á þeim fundum sem ég átti í Istanbúl, sem voru hartnær 20 ef ég man rétt, við aðila af ýmsu tagi, ráðherra, framkvæmdastjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sitt á hvorum fundinum, allmarga bankastjóra eða forustumenn banka og stórra fjármálafyrirtækja, talsmenn matsfyrirtækja og ráðgjafarfyrirtækja og fleiri aðila voru ekki færðar fundargerðir. Rétt er að hafa í huga að stundum eru haldnir fundir sem eru í raun gagngert þannig upp settir að ekki er ætlunin að til nokkurs hlutar sem þar fer fram sé vitnað, þegar t.d. ráðherrar velja að ræðast við einir og einslega án nokkurra viðstaddra embættismanna. Þetta er að sjálfsögðu spurning um margt í senn, að menn skiptast á skoðunum og upplýsingum, ræða í trúnaði um viðkvæm atriði og stundum kjósa menn að gera það jafnvel undir fjögur augu. Það leiðir af sjálfu sér og liggur í hlutarins eðli að í slíkum samskiptum ætlast menn almennt ekki til að vitnað sé til þess sem þar er sagt, hvað þá að fundargerðir séu færðar af slíku eða menn séu með upptökutæki inni á sér eða annað slíkt.