138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

fundargerðir af fundum um Icesave-málið.

269. mál
[16:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Að sjálfsögðu hef ég skilning á því að þegar ráðherrar funda tveir einir og þurfa að tala um viðkvæm mál sé ekki ætlast til að haft sé beint eftir þeim. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra þó svarað því mjög ærlega að ekki hafi verið skrifaðar fundargerðir á þessum fundum sem embættismenn sátu, og ég biðst forláts ef ég hef kallað það samninganefnd, sem fóru út á hans vegum til að kynna þessa fyrirvara. Í ræðu í þinginu í september greindi hæstv. ráðherra frá nokkrum fundum sem þessir embættismenn áttu í Haag og nokkru síðar í London, það voru hreinir kynningarfundir og hálfum mánuði síðar bárust viðbrögð.

Ég verð að viðurkenna að mér þykir furðulegt að ekki skuli vera til alla vega fleiri minnisblöð eins og þetta sem frægt er orðið. Ég hlýt að spyrja, þar sem ráðherrann talaði um að menn þyrftu að koma sér saman um hvað stæði í fundargerðum til að hægt væri að hafa þær aðgengilegar: Var það minnisblað sem skrifað var til ráðherrans og lagt fram í ríkisstjórn samþykkt af viðsemjendunum? Er það eitthvað sem báðir aðilar koma sér saman um? Almennt er ekki venjan að halda fundargerð, segir hæstv. ráðherra og finnst að ég eigi að kannast við það verklag. Ég er ekki sammála því af minni reynslu í þessu samhengi. Ég minnist þess þegar leitað var sérstaklega eftir afstöðu, sem ég geri ráð fyrir að gert sé á þessum fundum — það er leitað stuðnings og afstöðu ríkja til þessa ákveðna máls sem er mikilvægasta milliríkjadeila sem við höfum átt í um langa hríð. Ég minnist þess þegar ég var aðstoðarmaður utanríkisráðherra og fundað var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna með utanríkisráðherrum til að leita eftir afstöðu til framboðs okkar, (Forseti hringir.) þá var það skrifað niður og haldnar fundargerðir af þeim embættismönnum sem sátu þá fundi. (Forseti hringir.) Í þessu tilfelli, þegar leitað er eftir afstöðu og stuðningi (Forseti hringir.) og kallað eftir sjónarmiðum, finnst mér furðulegt að það skuli ekki vera skrásett.