138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykja það ekki góð rök í málinu að vísa í eitthvað annað. Ég var að spyrja um Fæðingarorlofssjóð og hvernig hann virkar á jafnrétti kynjanna. Ég hef nefnilega miklu meiri trú á því að gera karlmenn jafndýra konum en að vera að kjósa konur í stjórn fyrirtækja bara af því að þær eru konur. Ég hef miklar efasemdir um akkúrat það atriði, að kjósa konur t.d. á þing bara af því að þær eru konur. Ég vil að fólk sé í stöðum sínum vegna eigin verðleika en ekki vegna kyns. Það er afstaða mín í málinu sem hv. þingmaður nefndi áðan til að víkja undan þeirri spurningu sem ég kom með, hvort það hafi virkilega hvergi fundist matarhola í útgjöldum ríkissjóðs í þeirri miklu þenslu sem hefur verið undanfarin ár, sem flokkur minn átti reyndar sök á, þ.e. tíð þeirrar velferðarstjórnar sem þá var, því að útgjöld til velferðarmála stórjukust á þeim tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórn og ríkisvaldið jókst, hvort það hafi virkilega hvergi fundist matarhola eða aukning til þess að skera niður fyrir utan Fæðingarorlofssjóð.

Mér finnst nefnilega, þegar við stöndum í þessari stöðu núna, að við þurfum að fara mjög vandlega í gegnum allt það sem skorið er niður, hvar skorið er niður og ekki gera það flatt. Hér hefur t.d. verið bent á — hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur margoft bent á það í þessari umræðu — að það mætti skera niður um umtalsverðar upphæðir, t.d. með því að sameina sjúkrahúsin í Kraganum. Það er ekki gert en það skal skorið niður í jafnrétti kynjanna.