138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fél.- og trn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta í þessu viðamikla máli og geri hér grein fyrir afstöðu okkar. Við munum ekki geta stutt málið eins og það er lagt fyrir og lítur út eftir þær breytingar sem meiri hluti félags- og tryggingamálanefndar hefur gert á því.

Í fyrsta lagi gerum við alvarlegar athugasemdir við þann hraða og það óðagot sem einkennir framlagningu og vinnslu frumvarpsins sem var eingöngu í viku í umfjöllun hjá nefndinni, auk þess sem umsagnaraðilum voru gefnir þrír dagar til að skila inn skriflegum umsögnum um málið. Sú málsmeðferð var mjög gagnrýnd af öllum þeim gestum sem komu fyrir nefndina og mörgum þótti brotið þar blað í samskiptum sínum við ráðherra, hæstv. ráðherra málaflokksins, ráðuneytið og þingið.

Við tökum undir þá gagnrýni og teljum að sú málsmeðferð og þau vinnubrögð sem viðhöfð eru hér í hverju málinu á fætur öðru séu í raun fyrir neðan allar hellur. Ég vil með leyfi forseta vitna í umsögn Alþýðusambands Íslands í þessu máli sem tengist því atriði sem ég hef verið að ræða. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í upphafi er rétt að taka fram að Alþýðusamband Íslands hefur gagnrýnt harðlega hvernig staðið var að gerð þessa frumvarps sem endurspeglast að nokkru í efni þess. Það hefur tíðkast um langt árabil, óháð skipan ríkisstjórna eða hvaða ráðherrar hafa farið með málefni vinnumarkaðarins, að leitað hefur verið eftir samráði við Alþýðusambandið og aðra aðila vinnumarkaðarins um mál er varða sérstaklega réttindamál launafólks og velferðarkerfið á vinnumarkaði.“ — Sem vissulega eru þættir í frumvarpinu sem fjallað er um. — „Jafnframt hafa allir aðilar sem málið varðar leitast við að ná sameiginlegri niðurstöðu sem sátt hefur verið um.“

Má segja að sú leið sem hafi verið vörðuð í þessum samskiptum og í umsögn Alþýðusambandsins kemur fram að þar hafi verð farin sú leið í gegnum tíðina sem „norræna vinnumarkaðsmódelið byggir á, þ.e. að leita sátta og semja um niðurstöðuna ef nokkur kostur er.“

Það kom fram í viðtölum okkar við gesti sem komu á fund nefndarinnar að í byrjun hefði verið lofað ákveðnu samráði og að ákveðið samráð yrði viðhaft en um leið og ágreiningurinn óx hafi í raun allt samband rofnað milli þessara aðila.

Frumvarpinu er ætlað að færa lagareglur til samræmis við framkvæmd og við tökum undir að slíkar breytingar séu gerðar. Útfærsla á valdsviði úrskurðarnefndar almannatrygginga teljum við til bóta, en bendum þó á að óvíst er hvort lenging frests á úrskurðum úr tveimur mánuðum í þrjá dugi til.

Hér þarf vissulega að skoða málin miklu betur. Á fundum nefndarinnar kom fram hjá gestum að dæmi væru um að úrskurður tæki allt að sex mánuði. Nefnd voru dæmi um mál sem væru enn ekki afgreidd eftir sex mánaða bið. Það er auðvitað algjörlega óþolandi og það kom fram að þau atvinnutækifæri jafnvel sem hafa hangið á spýtunni og tengd væru þessum þætti, afgreiðslu úrskurðarnefndarinnar, hafi farið forgörðum á tímabilinu. Það er því okkar mat að gera þurfi kröfu að ekki dragist úr hófi að fá úrskurð í málum, slíkt sé óþolandi fyrir bótaþega. Sú ákvörðun að færa þetta úr tveimur mánuðum í þrjá er í raun ekkert annað en frestun á vandamálinu og ekki er verið að taka á kjarna vandans að okkar mati.

Í 11. gr. frumvarpsins er kveðið á um að heimilt verði að framlengja hámarkstímabil endurhæfingarlífeyris í allt að 36 mánuði. 2. minni hluti telur nauðsynlegt að leggja áherslu á endurhæfingu en þykir jafnframt ljóst að ákvæðið muni ekki nýtast sem skyldi enda þarf að styrkja endurhæfingarúrræði til muna. Það hefur ítrekað komið fram í umræðunni á undanförnum missirum og kom fram á fundum nefndarinnar. Ekki er nægilegt að kveða á um að leggja eigi áherslu á endurhæfingu ef engin úrræði eru í boði.

Ég vitna aftur í umsögn Alþýðusambands Íslands um málið en þar segir, með leyfi forseta:

„Í 7. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að lengja heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris úr 18 mánuðum í allt að 36 og samhliða því forsendum þessa lífeyrisforms og tekjutengingum gagnvart öðrum bótakerfum. ASÍ hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á endurskoðun örorkubótakerfisins með það að markmiði að efla hlut starfsendurhæfingar og markvissrar virknivæðingar þeirra sem missa starfsgetu og gætu þurft að reiða sig á varanlegar velferðarbætur. Við endurskoðun kjarasamninga í nóvember 2005 náðist samkomulag við þáverandi stjórnvöld um að skipa sérstaka nefnd um endurskoðun örorkumatsins sem skilaði niðurstöðu vorið 2007 og í framhaldi af því var skipuð sérstök framkvæmdanefnd um að breyta gildandi lögum og reglugerðum í samræmi við niðurstöðu nefndarinnar. Af ýmsum ástæðum dróst starf framkvæmdanefndarinnar á langinn, m.a. vegna efnahagshrunsins, en í sumar skilaði sérstakur vinnuhópur niðurstöðu um nýtt starfshæfnismat sem grundvöll að nýrri hugsun og aðferð við að meta umfang örorku og getu viðkomandi til að stunda launavinnu. Áður en framkvæmdanefndin fékk ráðrúm til að fjalla um þessa aðferð og endurskoða gildandi reglur um forsendur örorkumatsins var hún lögð af án þess að málið yrði sett í skilgreindan farveg svo vitað sé. Sú breyting sem hér er lögð til er afar takmörkuð og í reynd óséð hvernig hún á að geta leitt til markverðs árangurs.“

Aftur erum við upplifa það hvernig verið er að breyta vinnuaðferðum í samskiptum hins opinbera við aðila vinnumarkaðarins, við þau hagsmunasamtök þeirra einstaklinga sem hér eiga hlut að máli.

Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að við erum að tala um vinnu sem sett var af stað í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og núverandi meiri hluti hefur kannski hvað mest gagnrýnt fyrir að hafa ekki staðið sig í velferðarmálum. En við erum hér að tala um að verið er að gagnrýna þessa vinstri stjórn, þessa svokölluðu velferðarflokka, sem virðist þó aðallega vera í orði en ekki á borði, það er verið að gagnrýna þá fyrir að brjóta blað í þessum samskiptum. Það eru hagsmunasamtök launafólks og hagsmunasamtök þeirra einstaklinga sem hér eiga hlut að máli sem gagnrýna harðast í þeim efnum.

Með leyfi forseta, segir ASÍ áfram í umsögn sinni um þetta atriði málsins:

„ASÍ tekur undir þau sjónarmið og markmið sem liggja að baki þessari tillögu, telur það algjöra forsendu fyrir að einhver árangur verði af slíkum breytingum að heildarendurskoðun verði gerð á forsendum örorkumatsins sjálfs en ekki afmörkuðum þáttum í lögunum um félagslega aðstoð. Sú vinna var vel á veg komin og miður að starf framkvæmdanefndarinnar hafi verið lagt af og leggur til að því starfi verði þegar í stað hrundið af stað í nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins og Öryrkjabandalag Íslands.“

Boðaðar eru breytingar á örorkumatskerfinu á næsta ári þar sem leggja á áherslu á starfsgetu en ekki vangetu til starfs. Í ljósi þess sem ég hef áður sagt teljum við að hér sé um mikilvæga endurskoðun að ræða en leggjum jafnframt áherslu á það og tökum undir með umsagnaraðilum að þörf er á því að endurskoða bótakerfið allt sem er ógagnsætt og flókið. Horfa þarf heildstætt á kerfið, einfalda það og gera það gegnsærra þannig að yfirsýn sé næg og komið verði í veg fyrir oftryggingu, sem rætt hefur verið um að sé jafnvel of mikil í núverandi kerfi.

Fyrir nefndinni var gagnrýnt harðlega að gengið væri harðast gegn þeim hópi sem síst mætti við því. Í tillögum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum á að leggja áherslu á að gæta láglaunafólks í öllum stéttum og hafa öryrkjar sem fá hvað lægstar bætur gagnrýnt að það sama gildi ekki um þá. Þá hafa hagsmunahópar lífeyrisþega gagnrýnt, og það kom fram af hálfu Öryrkjabandalags Íslands einnig, að þeir skuli ekki fá neinn aðlögunartíma vegna þeirra breytinga sem þá varða miðað við aðrar breytingar sem boðaðar eru á kjörum launafólks af hálfu núverandi ríkisstjórnar, svo sem breytingar á sjómannaafslætti, en miðað er við fjögur ár. 2. minni hluti telur sömu gagnrýni eiga við um þær breytingar sem lagðar eru til á fæðingarorlofskerfinu þar sem aðlögunartími er lítill sem enginn. (Gripið fram í: Tvær vikur.) Ha? (Gripið fram í: Tvær vikur.) Tvær vikur, já.

Það komu fram alvarlegar athugasemdir og gagnrýni á þennan þátt málsins hjá þeim sem komu fyrir nefndina, sérstaklega Öryrkjabandalaginu, Samtökum eldri borgara, og það er ekki annað hægt en að taka undir þá gagnrýni, sérstaklega í ljósi þess hvað samráðsleysið hefur verið mikið, hvað þessum aðilum virðist hafa verið haldið skipulega frá borðinu. Það er auðvitað mjög alvarlegt þegar verið er að hreyfa við svo mikilvægum málaflokki og nokkuð mikil sátt hefur verið um hvernig breytingum hefur verið háttað á undanförnum árum, að sú breyting skuli vera gerð í núverandi stjórnarmeirihluta í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, að brjóta blað í þessum málum. Fer maður nú að segja það við hv. þingmenn úr þeim flokkum og hæstv. ráðherra að þeir ættu að hætta að kasta steinum úr glerhúsi þegar þeir eru að gagnrýna hvernig ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og þeirra samstarfsflokka sem með okkur hafa starfað á undanförnum árum og lagt grunninn að því góða velferðarkerfi sem hér er og verið er að rífa niður núna í meðförum þessarar ríkisstjórnar, að þeir hætti að henda steinum úr glerhúsi í gagnrýni sinni og fari nú að líta í eigin barm og reyni að læra eitthvað af vinnubrögðum okkar, af vinnubrögðum ráðherra sjálfstæðismanna og samstarfsflokka okkar í gegnum tíðina. (Gripið fram í: Og í góðu samstarfi.)

Í frumvarpinu sem og breytingartillögum meiri hlutans er enn verið að veikja grundvöll fæðingarorlofskerfisins og er það kannski það atriði sem hvað mestri gagnrýni veldur í frumvarpinu. 2. minni hluti varar við þeim afleiðingum fyrir jafnrétti kynjanna sem geta falist í lækkun á hámarki bóta. Í nefndaráliti meiri hlutans er gagnrýnt að fjármögnun sjóðsins sé ekki nægilega tryggð og telur 2. minni hluti því rétt að árétta að forgangsröðun við niðurskurð í ríkisfjármálum er í höndum ríkisstjórnar. Það er á þeim bæ sem þessar ákvarðanir eru teknar og væri raunverulegur vilji fyrir hendi hefði verið hægt að tryggja að ekki kæmi til frekari skerðingar á fæðingarorlofi með því að forgangsraða þessu mikilvæga jafnréttismáli framar en gert er.

Enn og aftur er verið að rýra hér kerfi sem hefur vakið athygli víða um lönd. Má segja að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 2000 í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins á þeim tíma, þetta var hluti af kjarasamningum sem þá voru gerðir, að þeir aðilar í samstarfi hafi varðað veginn við að koma á einhverju öflugasta fæðingarorlofskerfi sem dæmi er um. Hver er megintilgangurinn með því kerfi, virðulegi forseti? Hann liggur í jafnréttishugsuninni. Hann liggur í jafnréttishugsuninni. Hann liggur í jafnrétti kynjanna. Hann liggur í því jafnrétti að gera kynin jafnverðmæt á vinnumarkaði.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir gagnrýndi hv. þm. Pétur Blöndal fyrir að hafa greitt atkvæði í dag gegn tillögum og því frumvarpi þar sem fjallað er um lagasetningu um að hlutfall kynjanna skuli vera a.m.k. 40% í stjórnum fyrirtækja og stofnana. Ég held að það sé mikill misskilningur, virðulegi forseti, ef fólk telur að hægt sé að knýja fram raunverulegt jafnrétti með slíkum aðgerðum. Ég held að það sé algerlega kolröng nálgun.

Það hefur sýnt sig og hefur komið fram á fundum félags- og tryggingamálanefndar að t.d. hjá Reykjavíkurborg þar sem ákveðið hvatakerfi hefur verið í gangi í nokkur ár og meðvituð stefna um að auka jöfnuð kynjanna í stjórnunarstöðum, er árangurinn mjög góður. Það er þannig sem við eigum að gera þetta. Við eigum ekki að fara í valdbeitingu ofan frá, heldur eigum við að skapa aðstæður til þess að einstaklingar geti fengið notið sín. Það gerist ekki með lagaboði, virðulegi forseti, það gerist ekki með valdboði ofan frá. Það gerist með því að skapa frjóan jarðveg, þannig að jafnrétti geti sprottið hérna á jákvæðum nótum.

Ég vil í þessu samhengi, virðulegi forseti, leyfa mér að vitna enn og aftur í umsögn Alþýðusambandsins en þar segir, með leyfi forseta:

„Miðstjórn ASÍ hefur fjallað um viðbótarsparnaðarkröfu sem gerð er á Fæðingarorlofssjóð vegna ársins 2010 […] Það er skoðun ASÍ að með þessari sparnaðarkröfu sem kemur til viðbótar því sem áður hefur verið ákveðið sé með alvarlegum hætti vegið að því framsækna fæðingarorlofskerfi sem byggt hefur verið upp hér á landi frá árinu 2000. Fyrirkomulagi sem hefur sýnt sig að vera mikilvægur grundvöllur réttinda barna til að vera samvistum við báða foreldra sína, aukins jafnréttis á vinnumarkaði og möguleika beggja foreldra til að samræma atvinnuþátttöku og fjölskyldulíf. Jafnframt skal bent á að lögin voru á sínum tíma sett á grundvelli yfirlýsingar þáverandi ríkisstjórnar í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Upphaflega löggjöfin og þær breytingar sem síðan hafa orðið á lögunum byggðu á samráði stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar, enda ljóst að hér er um að ræða mikilvægan hluta af réttindakerfi á vinnumarkaði.“

ASÍ segir einnig, með leyfi forseta:

„Engar rannsóknir liggja fyrir vegna mögulegra áhrifa þeirra breytinga sem þegar hafa verið ákveðnar, hvorki félagsleg né fjárhagsleg. Þá er vert að benda á að samkvæmt stöðugleikasáttmálanum sem gerður var í júní sl. var gert ráð fyrir að skerðing í velferðarkerfinu yrði ekki yfir 5%.“

ASÍ leggur til í ljósi þessa að tillagan verði dregin til baka og endurskoðuð.

Enn ein gagnrýnin bætist í þetta mál, virðulegi forseti, þar sem aðilar vinnumarkaðarins halda því fram að hér sé um að ræða brot á stöðugleikasáttmálanum sem gerður var í júní sl. og átti að verða áfangi að betra samfélagi og góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins en er í algjöru uppnámi. Er þetta enn eitt atriðið sem verið er að brjóta í þeim sáttmála.

Ég þykist þess viss, virðulegi forseti, að við séum að nálgast þolmörk þess sem aðilar vinnumarkaðarins geta látið bjóða sér í þeim efnum. Það er auðvitað mjög alvarlegt ef sú samstaða sem náðist og bundnar voru vonir við að yrði milli aðila til að vinna þjóðina út úr þeim vanda sem við erum stödd í skuli vera í uppnámi.

Það hefur einnig verið gagnrýnt að ákveðið ójafnræði sé milli barna eftir því hvort þau eiga eitt eða tvö foreldri enda sé það markmið kerfisins að tryggja samvistir barns með foreldrum eins lengi og mögulegt er. Á þessu er ekki tekið í frumvarpinu en 2. minni hluti telur ástæðu til að nefna þetta atriði og mikilvægi þess að við endurskoðun á frumvarpinu hefði verið eðlilegt að skoða þetta ójafnvægi. Mér vitanlega liggja kostnaðarútreikningar ekki fyrir vegna þessa en í umfjöllun okkar um málið gerum við okkur þær hugmyndir að ekki sé um stóran kostnaðarlið að ræða en hér er um klára mismunun að ræða á milli barna sem eiga eitt foreldri þar sem foreldrar hafa mögulega skilið, faðerni ekki þekkt eða annað foreldri hafi látist. Þarna er klárlega ósamræmi á milli barna og ber að gagnrýna það og hefði verið ástæða til að endurskoða þennan þátt í tengslum við þær breytingar sem hér er verið að gera.

Annar minni hluti gagnrýnir einnig að ekki skyldi hafa verið frekar rætt um að takmarka þá skörun sem getur orðið á fæðingarorlofi foreldra. Það er réttur barnsins sem á að ráða í þessu máli og með því að setja reglur sem takmarka skörun telur 2. minni hluti, og það kom fram í umræðu innan nefndarinnar, að það gæti leitt til útgjaldalækkunar hjá sjóðnum þar sem ákveðin frestun gæti orðið á orlofstöku.

Ljóst er að það að takmarka ekki með neinum hætti þann tíma sem foreldrar geta tekið saman í fæðingarorlofi eykur mögulega misnotkun kerfisins þar sem annað foreldrið getur unnið samhliða því að fá greitt fæðingarorlof. Slíkt gengur þvert á markmið kerfisins og því teljum við að það ætti að líta til þessa þáttar og ábendingar komu fram um þetta atriði á fundum nefndarinnar en það var ekki rætt frekar.

Enn ein gagnrýnin kom af mikilli hörku fram á fundum nefndarinnar og sú gagnrýni var lögð fram af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Fulltrúar þess sem mættu á fund nefndarinnar sögðu hreinlega að það væri ekki hægt að fara með þau frumvörp sem við ræðum í gegn eins og þau væru undirbúin og sögðust ekki geta sætt sig enn og aftur við þau vinnubrögð sem viðhöfð eru af hálfu ráðuneytisins við undirbúning málsins og þingsins vegna þess stutta tíma sem það gefur til að fjalla um þessi mál. Í umsögn og gagnrýni Sambands íslenskra sveitarfélaga segir m.a., með leyfi forseta:

„Sambandið andmælir því harðlega að ráðuneytið og ríkisstjórn leggi ítrekað fram frumvörp til laga sem hafa veruleg áhrif á fjármál sveitarfélaga án þess að áhrif þeirra séu metin á fjárhag þeirra. Brýtur það í bága við ákvæði samkomulags Sambands íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra, dags. 30. desember 2005, um kostnaðarmat lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla gagnvart sveitarfélögum. Fulltrúar sambandsins hafa margítrekað á samráðsfundum með mörgum ráðherrum ríkisstjórnarinnar nauðsyn þess að meta ávallt fjárhagsleg áhrif frumvarpa á starfsemi hins opinbera. Að einskorða kostnaðarmat frumvarpa við áhrifin á ríkissjóð er alls óviðunandi. Kostnaðarmat fjármálaráðuneytis gefur einungis takmarkaðar upplýsingar um fjármál hins opinbera og þar með er grundvöllur hagstjórnar veikari en annars væri. Auk þess er fjármögnun einstakra þátta velferðarkerfisins stefnt í óvissu og þá sérstaklega þeirra sem sveitarfélögin bera ábyrgð á.“

Það segir áfram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, með leyfi forseta:

„Auk framangreinds samkomulags er þörfin fyrir kostnaðarmat gagnvart sveitarfélögum staðfest í svokölluðum vegvísi um gerð hagstjórnarsamnings milli ríkis og sveitarfélaga sem undirritaður var af fjármálaráðherra og ráðherra sveitarstjórnarmála ásamt forustumönnum sambandsins þann 1. október 2009 þar sem fram kemur nauðsyn þess að leita leiða til að tryggja að öll lagafrumvörp sem haft geta áhrif á útgjöld ríkissjóðs og/eða sveitarsjóði verði kostnaðarmetin áður en kynning fer fram í ríkisstjórn og frumvarp er lagt fram á Alþingi.

Sambandið krefst þess að fulltrúar ríkisvaldsins láti af þessum óvandvirku vinnubrögðum og standi við ákvæði framangreinds samkomulags. Þannig verði tekin upp vinnubrögð sem eru í takti við þróun þess upplýsingasamfélags sem við viljum búa í og nágrannaþjóðir okkar þekkja.“

Svo mörg voru þau orð, virðulegi forseti.

Það sem stendur upp úr í þessu máli er að mikil handvömm hefur verið í undirbúningi af hálfu ráðuneytisins í öllum samskiptum við þá aðila sem nauðsynlegt er að hafa samskipti, samráð og samningaviðræður við þegar svo veigamiklar breytingar eiga sér stað. Svo sterkt var til orða tekið af hálfu þeirra aðila sem komu á fund nefndarinnar að þeir töldu að brotið væri blað, það væri alveg sama hvaða ríkisstjórn og hvaða ráðherrar hefðu verið við völd, þessi vinnubrögð hefðu aldrei þekkst.

Ég vil ítreka, virðulegi forseti, að það er vinstri stjórn, þessi svokallaða velferðarstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sem á heiðurinn af því að breyta þeim vinnubrögðum, sem á heiðurinn af því að brjóta blað í samskiptum við Öryrkjabandalag Íslands, Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og Samband íslenskra sveitarfélaga. Hvet ég hv. þingmenn þessa meiri hluta og hæstv. ráðherra núverandi ríkisstjórnar þegar þeir koma hér upp í gagnrýni sinni á þau vinnubrögð sem þeir vilja meina að sjálfstæðismenn og samstarfsaðilar þeirra hafi viðhaft í ríkisstjórnum undanfarinna ára, að þeir líti nú í eigin barm og reyni að taka til heima hjá sér. Ég held að það sé orðið tímabært.