138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

fundarstjórn.

[20:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil koma upp og lýsa því sem gerðist í viðskiptanefnd nú rétt í þessu og tek undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að slík vinnubrögð eru algjörlega ósæmandi þingnefnd á hv. Alþingi. Hér vinnum við í góðri trú eftir samkomulagi sem formenn stjórnarandstöðuflokkanna gerðu við hæstv. forseta og hæstv. forseti lagði metnað sinn í það að koma á ákveðnu verklagi í þessu máli, setja málið á ákveðinn feril. Þannig er það algjörlega óásættanlegt að eftir að við höfum haldið einn fund um málið þar sem við fengum gesti og upplýsingar, er haldinn hálftímalangur fundur í matarhléi þar sem dreift var nefndaráliti sem að vísu var sent í tölvupósti klukkan fimm en sökum anna hér við þingstörf höfum við ekki náð að kynna okkur þetta mál. Þetta mál varðar fjárskuldbindingar íslenska ríkisins til áratuga og þessi vinnubrögð (Forseti hringir.) eru þinginu alls ekki til sóma og eru alls ekki í anda þess samkomulags sem gert var. Ég vil mótmæla þessu, frú forseti.