138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

fundarstjórn.

[20:10]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í dag eru liðnir átta eða níu dagar síðan samkomulag var gert á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um meðferð á hinu svokallaða Icesave-máli. Þar voru listuð 16 atriði sem átti að fara yfir. Efnahagsnefnd fékk nokkur atriði og viðskiptanefnd átti að fá önnur. Ég fór sjálfur persónulega yfir listann og þar kom fram að efnahagsnefnd ætti að meta skuldaþol Íslands. Ég benti á að það væri meira viðeigandi að það færi inn í viðskiptanefnd, sem var samþykkt. Síðan kemur bréf til viðskiptanefndar og þar er hvergi minnst á skuldaþolið. Þarna er bara eitt örlítið atriði eða eitt stórt atriði reyndar sem féll milli skips og bryggju þannig að hv. skipstjóri skilji líkingamálið. (Forseti hringir.) Það er því ekki rétt sem hv. þm. Björn Valur Gíslason heldur fram að búið sé að dekka öll þessi atriði. (Forseti hringir.) Það er rangt, ég neita því. (Forseti hringir.) Það er ekki verið að standa við samkomulagið.