138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

fundarstjórn.

[20:12]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er ekki langur tími síðan forustumenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi sátu saman á ágætum fundi til að ræða um það hvernig ljúka megi störfum á Alþingi með sómasamlegum hætti. Forustumenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar á þeim fundi voru með ágætan málflutning og það var mikill sáttatónn í þeirra röðum. Mér sýnist að sú sátt hafi verið rofin með því að virða ekki það samkomulag sem gert var, eins og hv. formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, lýsti hér yfir í heyranda hljóði, með leyfi forseta:

„Málsmeðferð í nefndinni mun byggja á nefndum tillögum og að öðru leita samkomulags um þau atriði sem þarf að taka ákvörðun um.“

Það var ekki leitað samkomulags í viðskiptanefnd um að ljúka málsmeðferðinni. Mér þykir það miður og ég beini því (Forseti hringir.) til frú forseta að gera hlé á þessum fundi þannig að stjórnarliðar geti samhæft störf sín á vettvangi þingsins.