138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[20:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég reikna með því að við séum að ræða almannatryggingar, 1. mál á dagskrá, þrátt fyrir allar þessar truflanir, en þar er m.a. um að ræða fæðingarorlof, örorkumat og annað slíkt. Það er mjög mikilvægt, frú forseti, þegar þjóð lendir í hremmingum og kreppu eins og við höfum lent í að menn heyi varnarbaráttu fyrir velferðarkerfið og gæti að því hvar þeir vilji skera niður og hvar ekki. Það versta sem hægt er að gera er að fara í flatan niðurskurð og segja: Hér verðum við að skera svo og svo mikið, eins og Fæðingarorlofssjóð því hann sé of dýr eða eitthvað slíkt, og þar af leiðandi skerum við niður. Það á ekki að vera hvatinn til breytinga, frú forseti. Menn eiga að skoða hvað þeir vilja tryggja, þetta á að vera varnarbarátta. Í mínum huga er það kjarnafjölskyldan, börnin og aldraðir sem þarf að vernda, öryrkjar, láglaunafólk og aðrir slíkir. Það þarf að gæta vel að því hvar við viljum skera og skerða og alls ekki gera það með flötum hætti. [Háreysti í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (UBK): Forseti vill biðja um einn fund í salnum.)

Þegar við ræðum um fæðingarorlof, eins og í þessu frumvarpi, og ákveðna skerðingu á því koma fyrst upp í hugann þeir sem njóta þess, þ.e. foreldrarnir náttúrlega en kannski fyrst og fremst börnin. Ég mundi segja að fyrstu tvö árin í lífi mannsins þurfi hann mjög mikla umhyggju, hann er að læra á umhverfið, tengjast ákveðnum persónum og það er mjög mikilvægt að hann sé í samvistum við foreldra sína.

Ég hef saknað þess að foreldraorlofið, sem sett var á laggirnar ásamt fæðingarorlofinu, hefur verið lítið áberandi og lítið notað en það er réttur foreldra til að taka frí eða orlof án launa. Mér finnst að menn hefðu átt að gefa því orlofi miklu meiri gaum vegna þess að um leið og barnið fer að heiman myndast heilmikill kostnaður. Einhver gætir barnsins, hvort sem það er dagmamma, leikskóli, gæsluvöllur eða hvað það nú er. Ég hugsa að ef sveitarfélögin veittu styrki til foreldra sem nýttu sér foreldraorlofið og komið væri upp skynsamlegu vinnufyrirkomulagi hjá fyrirtækjum, t.d. vöktum — ég hef reiknað út að það þarf ekki að vera neinn sérstakur kostnaður. Það getur jafnvel verið að það sé ódýrara að foreldrarnir taki launalaust leyfi í staðinn fyrir þann kostnað sem fylgir því að barnið fari eitthvert annað. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. félagsmálaráðherra, sem ég vona að sé hérna viðstaddur, hvort honum sé kunnugt um hvað foreldraorlofið hafi verið mikið notað því að mér finnst fara litlum sögum af því að það hafi yfirleitt verið notað.

Ég hef áður nefnt jafnréttið. Jómfrúrræða mín árið 1995 fjallaði einmitt um fæðingarorlof. Þá var það ekki komið og ég gat einmitt um að þetta væri það eina sem ég sæi þá andstætt jafnrétti kynjanna. Konurnar voru hreinlega miklu dýrara vinnuafl — þrítug kona var dýrari en þrítugur karl vegna þess að það voru töluvert miklar líkur á því að hún færi í barneignarfrí eða fæðingarorlof en karlinn ekki. Þar af leiðandi var hann mikið ódýrari vegna þess að það felst heilmikill kostnaður í því að skipta um starfsmann og kenna honum, villumöguleikum o.s.frv. Síðan þegar gamli starfsmaðurinn kemur aftur vill sá nýi helst náttúrlega halda áfram. Þetta kostuðu konurnar atvinnulífið en ekki karlarnir. Fæðingarorlofið gekk út á að gera karlmennina jafndýra og konurnar á vinnumarkaði. Ég er jafnréttissinni og vil endilega koma á jafnrétti kynjanna, sem er ekki til staðar því miður, og þess vegna var ég alltaf á móti þessum skerðingum á hámörkunum því að þau gera ekkert annað en að segja að það eigi að vera jafnrétti á lágum launum, þar eiga karlarnir að fara heim til sín, en ekki á háu laununum. Þar eiga þeir að vera áfram ódýrari en konur af því að þeir fara ekki heim.

Nú sýnist mér einmitt þróunin vera sú og upplýsingar sýna að karlmenn, eflaust í hæstu launaflokkunum, séu hættir að nýta sér fæðingarorlofið. Það veldur svo aftur því að þetta jafnrétti sem menn berjast fyrir á sér ekki stað, þ.e. þeir eru þá orðnir ódýrari fyrir atvinnulífið en konur með sömu laun. Fyrir utan auðvitað að börnin njóta þá ekki samvista við foreldra sína og það sem er kannski mest um vert, frú forseti, er viðhorf karlmanna til barna sinna. Það finnst mér hafa breyst óskaplega mikið eftir að fæðingarorlofið kom, karlmenn fóru að sinna börnunum, skipta á þeim, gefa þeim að borða og annast þau allan daginn. Viðhorf karlmanna breyttist mjög mikið og ég tel að líf karlmanna hafi orðið mikið ríkara fyrir vikið. Þess vegna finnst mér enn þá sárara að horfa upp á að menn séu í rauninni að eyðileggja þetta til þess að spara einhverjar krónur og aura hingað og þangað í staðinn fyrir að finna aðrar leiðir til sparnaðar. Við sjálfstæðismenn höfum flutt breytingartillögur við fjárlögin einmitt til þess að spara umtalsverða fjármuni sem mætti nota í þessu skyni.

Þá er ég búinn að fjalla um að við þurfum að vinna áfram að því að gæta litla borgarans. Mér finnst nefnilega að enginn hugsi um heiminn út frá sjónarhorni hans, hvernig það er að vera níu mánaða og vera allt í einu sendur út í heim í ókunnugt umhverfi til ókunnugrar dagmömmu og ókunnugra barna og allt er ókunnugt. Hvernig skyldi það nú vera? Ég veit að mörg börn eru ekkert voðalega sátt við þetta, þau grenja og grenja. Foreldrarnir þurfa að vera með þeim ákveðinn tíma til að aðlaga þau í staðinn fyrir að þau séu bara heima hjá sér þar sem þau þekkja til. Þar eru ákveðnar persónur, veggir og húsgögn sem þau þekkja og þar þurfa þau að vera töluvert mikið lengur en til níu mánaða aldurs.

Mér finnst að menn hugsi ekki út frá þessu sjónarhorni barnsins. Ég hef jafnvel þann grun, og ég hef töluverða reynslu af uppeldi barna þar sem ég er búinn að ala upp sex börn, að fyrst við þriggja ára aldurinn geti mörg börn farið að heiman. Önnur geta það eflaust fyrr, tveggja ára jafnvel, þau sem eru sjálfstæð en níu mánaða er engan veginn möguleiki. Þess vegna vildi ég að menn skoðuðu miklu frekar foreldraorlofið og fæðingarorlofið sem eina heild. Atvinnulífið þarf að koma inn í þetta dæmi líka þannig að fólk geti skipst á um að vinna í foreldraorlofinu þegar þau eru kannski launalaus hálfan daginn. Þetta var um fæðingarorlofið og mér þykir virkilega miður að menn skuli í neyð sinni grípa þar niður og skora á hæstv. ríkisstjórn að standa sig i varnarbaráttunni fyrir grunnstoðum velferðarkerfisins.

Síðan er nefndur endurhæfingarlífeyrir. Ég hef miklar efasemdir um það og hef spurt að því áður, frú forseti, hvort hæstv. félagsmálaráðherra ætli ekki að gera eitthvað með hið mikla starf þeirrar nefndar sem ég átti þátt í og átti reyndar upptökin að með erindi fyrir sex árum um að núverandi örorkukerfi væri í rauninni afskaplega slæmt. Maður sem er metinn 75% öryrki fær fullar bætur en sá sem er 74% öryrki fær lítið sem ekki neitt. Því er tilhneiging til að setja alla upp í 75% örorku enda tala menn alltaf um 75% örorku eins og náttúrulögmál. Þetta er sem sagt ákveðið punktmat, annaðhvort ertu öryrki eða ekki. Auðvitað er það ekki þannig í raunveruleikanum. Sem betur fer hefur afskaplega fátt fólk alls enga vinnugetu. Flestir eru kannski 20% eða 80% öryrkjar og það þarf að taka mið af því. Menn eiga að geta unnið áfram og haldið launum sínum að hluta til og vera að öðrum hluta öryrkjar og fá bætur sem slíkir.

Þessi nefnd sem starfaði á meðan Sjálfstæðisflokkurinn var við völd koðnaði niður og varð að engu eftir að Sjálfstæðisflokkurinn datt úr ríkisstjórn. Það er mjög miður því að ég held að núverandi kerfi sé afskaplega óvinsamlegt öryrkjum. Ég vil ekki segja að það búi til öryrkja en allt að því og endurhæfingarúrræðin eru allt of, allt of fátækleg. Að lengja endurhæfingartímann þegar lítið er um úrræði. Ég sé eiginlega engan tilgang með því. Það þarf að stórauka endurhæfingarúrræðin, jafnvel þó að þau kosti, þannig að bæði lífeyrissjóður og almannatryggingar þurfi að borga minna og öryrkjar verði í tengslum við vinnumarkaðinn. Það er mjög mikilvægt. Þess vegna skora ég á hæstv. ráðherra að setja nefndina aftur á fullt flug. Einmitt núna þegar staðan er svona slæm er mikilvægt að þessi nefnd starfi, sérstaklega þegar við horfum upp á vaxandi langtímaatvinnuleysi.

Ég vara eindregið við langtímaatvinnuleysi því það er stórhættulegt. Ekki hafa verið gerðar rannsóknir hérna en erlendar rannsóknir sýna að sá sem er frá vinnumarkaði í sex mánuði, af hvaða ástæðum sem það er — það eru 80% líkur á því að hann fari aldrei aftur að vinna. Langtímaatvinnuleysi býr því til öryrkja og langtímaendurhæfing án virkni býr til öryrkja með sama hætti. Þess vegna vil ég að menn taki á honum stóra sínum og breyti þessu örorkumati og endurhæfingunni og geri stórátak í því að bæta endurhæfinguna og sérstaklega að halda tengslum fólks við vinnumarkaðinn, líta á hvað menn geta en ekki hvað menn geta ekki.