138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[20:31]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það sem við erum að gera. Við stöndum í harðri varnarbaráttu og við forgangsröðum mjög stíft. Þess vegna leggjum við ekki á flatan niðurskurð, en við þurfum að skera mikið niður víða. Við erum á sama tíma að gera hluti sem Sjálfstæðisflokkurinn drattaðist aldrei til að gera þegar hann var í ríkisstjórn. Við ætlum að reyna að efla endurhæfingarúrræðin ef eitthvað er á næsta ári, á mestu samdráttartímum sem yfir þjóðina hafa gengið í 80 ár. Mér finnst satt að segja ágætt að sjálfstæðismenn, með ákveðinn snefil af manngæsku eins og hv. (Gripið fram í.) þingmaður hefur, taki það til sín og sjái hversu skökk forgangsröð þessa flokks var þegar hann var í ríkisstjórn. Það eru fjölmörg verkefni, (Gripið fram í.) brýn úrræði í velferðarmálum, (Gripið fram í.) sem aldrei var ráðist í í tíð Sjálfstæðisflokksins. Við ætlum að reyna núna af þröngum efnum að gera hluti sem menn treystu sér ekki til að gera þá.

Við erum að búa núna til úrræði, gríðarlega metnaðarfull úrræði, til þess t.d. að taka á alvarlegu atvinnuleysi ungs fólks, sem er fyrst og fremst menntunarvandi, fyrst og fremst vitnisburður um vanrækslusyndir íslensks skólakerfis á undanförnum árum. Íslenskt skólakerfi hefur undir forustu Sjálfstæðisflokksins ekki mætt fólki með fjölbreyttar þarfir og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert gert til að koma í veg fyrir brottfall úr framhaldsskólum sem er alvarlegt vandamál. Við erum núna að kljást við afleiðingar þess innan félagslega kerfisins og við ætlum bara einfaldlega að leysa það þar.