138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[20:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hef ákveðið að blanda mér í þessa umræðu til að fara aðeins yfir sjónarmið mín í þessu máli sem varðar viðamikil málefni sem koma til með að hafa áhrif á flestallar fjölskyldur í landinu.

Mig langar að byrja á að fara aðeins yfir málsmeðferðina og gagnrýna þann hraða og það óðagot sem virðist einkenna hana. Allir þeir aðilar sem óskað var eftir umsögnum frá kvörtuðu sérstaklega undan því hversu skammur tími hefði gefist til að veita umsögn og hversu stuttur fyrirvarinn hefði verið, og málið ber þess glögg merki.

Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á, stjórnað í 11 mánuði. Því mætti ætla að það fólk sem þar situr hefði haft einhvern tíma til undirbúnings, hefði haft einhvern tíma til að leggja það niður fyrir sér hvaða breytingar ætti að fara í o.s.frv. Þá hefði ekki þurft að gefa fólki þrjá daga til að fara yfir viðamikið mál eins og þetta. Það er miður að sjá það í hverju málinu á fætur öðru hér í þinginu að það virðist vera orðin regla frekar en undantekning að svo sé haldið á málum. Mér finnst ekki mikill bragur á því og ég vonast til þess að frú forseti beiti sér fyrir því að við þingmenn og þjóðin þurfum ekki að sætta okkur við þetta verklag mikið lengur. En batnandi fólki er best að lifa og ég ætla að hafa trú á því að því verði kippt í liðinn, þessu verklagi, og við látum þetta ekki yfir okkur ganga, sama í hvaða flokki við erum og sama frá hvaða flokki frumvörp sem þetta koma fram. Höfum þetta í huga í framtíðinni.

Frú forseti. Það hefur talsvert verið rætt um jafnréttismál í þessari umræðu. Ég get einfaldlega ekki orða bundist og ætla að blanda mér aðeins í það. Hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Pétur H. Blöndal og Jón Gunnarsson hafa fjallað um þau mál og þá aðallega í tengslum við það sem hér er verið að fjalla um, þ.e. fæðingarorlofið, og þá jafnframt vísað í frumvarpið sem var til umræðu og afgreiðslu hér fyrr í dag um lögþvingaðar aðgerðir til að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja.

Nú er það svo að mér þykja ákvæði af því tagi vera helst til niðurlægjandi fyrir konur og karla. Ég tel að þeir einstaklingar sem hafa áhuga, þor og getu til að starfa, hvort sem það er í fyrirtækjum eða stjórnmálum eða hvar sem það nú er sem fólk hefur áhuga á að setja kynjakvóta, geri það einfaldlega á sínum eigin verðleikum og hafi alla burði til að ná þar árangri, liggi áhugi og elja þar að baki. Við Íslendingar höfum einfaldlega sýnt það í verki að það er einmitt málið. Við stöndum í fararbroddi í þessu máli. Við gerum það á mörgum sviðum, sérstaklega hvað varðar setu kvenna í sveitarstjórnum.

Við eigum að horfa á það fordæmi. Við eigum að líta til þess hvernig konum hefur sífellt verið að fjölga í sveitarstjórnum þegar við horfum til þess að fara að breyta kerfinu á þann veg að nota lögþvinganir í þeim meinta tilgangi að auka jafnrétti á Íslandi. Þetta er algjörlega röng stefna sem er uppi. Ég veit að þetta hefði kannski átt að komast að hér fyrr í dag en þar sem menn eru enn að ræða þetta í þessu máli, þetta hefur óneitanlega blandast inn í umræðuna, er rétt að þetta komi fram.

Frú forseti. Fæðingarorlofið er mál sem varðar mjög jafnrétti kynjanna og hefur lyft grettistaki hvað það varðar. Þar sem hæstv. ráðherra, Árni Páll Árnason, er óþreytandi við að benda fólki á, þingmönnum hér, að allt sem illa hefur farið á Íslandi undanfarin ár sé Sjálfstæðisflokknum að kenna, skal ég sem sjálfstæðismaður eigna okkur þetta kerfi okkar, fæðingarorlofskerfið, með húð og hári. Það skal ég bara gera. Jafnvel fleiri mál sem vel hafa farið hér í þinginu. Vissulega hafa aðrir komið þar að, m.a. Framsóknarflokkurinn, en ef menn ætla að tala hér eins og allt sé annaðhvort svart eða hvítt getum við einfaldlega haft það þannig. Ég tel reyndar að það sé ekki til fyrirmyndar en vonast til að eiga orðastað við hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra um þetta einhvern daginn, um það hvað sé hverjum að kenna og hverjir beri ábyrgð á hinum og þessum hlutum, og hvort það sé kannski bara þannig að allir þurfi að axla ábyrgð á hluta málsins og sumir hverjir geti hrósað sér og flokksmönnum sínum af því sem vel hefur farið hér, þannig að því sé haldið til haga.

Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á hér áðan hefur Sjálfstæðisflokkurinn vissulega lagt mikið til málanna hvað varðar velferðarmál á Íslandi. Það er einfaldlega rangt að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekkert aðhafst í þessum málum og að það hafi verið Sjálfstæðisflokknum að kenna að ekki hafi meira þokast í þessum efnum á undanförnum árum. Það er einfaldlega rangt að halda því fram. Nú hefur það komið fram að Samfylkingin var í síðustu ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og hlýtur, í ljósi þess sem ég sagði hér áðan, að bera einhverja ábyrgð á því hvernig landinu hefur verið stjórnað undanfarin ár. Það er kannski ástæða til þess að hæstv. ráðherra fari aðeins yfir það í máli sínu hér á eftir.

Til þess að þjóð geti státað af öflugu velferðarkerfi þarf að sjálfsögðu að vera í því landi öflugt atvinnulíf og miklar skatttekjur sem margir skattgreiðendur greiða til hins opinbera. Þetta er í daglegu tali kallað að „stækka kökuna“ sem er til staðar til að útdeila. Ég held að það sé eitthvað sem við ættum að vera að horfa á. Þrátt fyrir að hér hafi orðið efnahagshrun þurfum við að horfa á framtíðina og hvernig við ætlum að haga hlutunum. Við eigum að hafa þá aðferð í huga þegar við erum að tala um það hvernig við ætlum að byggja upp okkar kerfi hér til framtíðar.

Frú forseti. Allir landsmenn gera sér grein fyrir því að fram undan er niðurskurður hjá hinu opinbera, óhjákvæmilegur og mikill niðurskurður. Hann verður erfiður og við eigum öll eftir að finna fyrir honum. Það er algjörlega þannig. Við skulum ekki reyna að fela þá staðreynd fyrir einum eða neinum. Hins vegar er ekki sama hvernig er skorið niður. Það er gríðarlega mikilvægt að beitt verði skýrri forgangsröðun við það verkefni og að jafnræðis verði gætt.

Fjárlagafrumvarpið sem er hér til umræðu, og er nú í meðferð fjárlaganefndar, ber því miður ekki þess merki að núverandi ríkisstjórn hafi þetta verklag í huga. Það er frekar erfitt að átta sig á því hvort yfir höfuð sé einhver forgangsröðun í gangi og í nefndaráliti 2. minni hluta nefndarinnar er það gagnrýnt að ekki sé ljóst hvar þessi málaflokkur sem við hér ræðum, og aðallega fæðingarorlofið, er í þeirri forgangsröðun. Þótt við getum endalaust deilt um það hver forgangsröðunin eigi að vera er mjög mikilvægt að ríkisstjórnin sé með einhverja forgangsröðun og segi fólki hvernig hún ætlar að hafa hlutina. Ég tel að fólkið hér í landinu skilji einfaldlega hvorki upp né niður í því hvað ríkisstjórnarflokkarnir eru að gera.

Ríkisstjórnarflokkarnir virðast varla ráða við þetta verkefni og ég tel að í þessu máli kristallist það. Hér er lögð fram tillaga sem, eins og einhver sagði hér áðan, er andvana fædd, þar sem enginn vill kannast við hana, það er að fresta einum mánuði af fæðingarorlofinu um nokkur ár. Enginn vildi kannast við hana og nefndin tók hana sem betur fer út og hefur fallið frá henni. Þetta er frekar furðulegt verklag og ég óttast að annaðhvort sé þetta fljótfærni, að menn hafi ekki lesið pappírana áður en þeir lögðu það fram og ekki áttað sig á því hvort þeir væru sammála sínu eigin frumvarpi eða ekki, eða að hér sé verið að beita smjörklípuaðferð sem felst í því að setja fram eitthvert dæmi sem er algjörlega ómögulegt að nokkur maður komi til með að samþykkja og nokkur maður komi til með að standa að og keyra í gegnum þingið, til þess að það verði aðalatriði í málinu, til þess að fela aðrar breytingar sem verið er að fara í með frumvarpinu. Annað hvort af þessu tvennu er hér í gangi og ég vonast til að það fyrra eigi við um það sem hér hefur óvart læðst á blað.

Frú forseti. Við horfum fram á niðurskurð í ríkisrekstri á komandi árum. Þannig er það. Við verðum að íhuga hvaða skuldbindingar það eru sem er óhjákvæmilegt að standa við og hverjar ekki með tilliti til þess hvernig lífsgæðum okkar Íslendinga verður háttað hér á þessu landi. Þar blandast Icesave-málið inn í. Þar er verið að leggja á þjóðina slíkar skuldbindingar að vart verður hægt að standa við þær, því miður. Og áhöld eru uppi um það hvort það verði hægt. Ég ber enn þá von í brjósti að hér á þinginu séu hugrakkir þingmenn sem komi til með að breyta því máli sem nú er í fjárlaganefnd.

Ég hef fulla trú á því að sú rannsókn og það aukaálit sem verið er að vinna að af fullum heilindum, samkvæmt samkomulagi Alþingis, í fjárlaganefnd komi til með að opna augu hv. þingmanna ríkisstjórnarflokkanna, sem hingað til hafa hugsað sér að styðja þetta mál, sumir hverjir í blindni að því er virðist, fyrir því að þetta sé ekki rétta leiðin. Það er algjörlega ljóst að ef Icesave-málið fer óbreytt í gegnum þetta þing verður óhjákvæmilegt að skera enn meira niður í ríkisrekstri á komandi árum og ef allt fer á versta veg verði enn gengið að fæðingarorlofssjóðnum.

Frú forseti. Ég hef áður sagt það að vissulega skiljum við öll að það þurfi að skera niður en við þann mikla niðurskurð þarf að beita vönduðum vinnubrögðum. Ég hef miklar áhyggjur af því að það sé ekki að gerast í þessu máli til dæmis. Ég vonast til þess að þetta mál fái enn vandaðri umfjöllun í félags- og tryggingamálanefnd fyrir 3. umr. þannig að sníða megi af því mestu agnúana vegna þess að það er enn þá von.

Ef okkur tekst að halda þannig á hlutunum að við forðumst að gangast í þær ábyrgðir sem Icesave-samningurinn felur í sér, sem ríkisstjórnin sem hefur setið hér í 11 mánuði ber alla ábyrgð á — hún ber alla ábyrgð á því hvernig því máli var lent, og ef okkur tekst að halda þannig á niðurskurðarhnífnum að við gætum jafnræðis og við gerum það á þann hátt að farið sé eftir skýrri forgangsröðun hef ég fulla trú á því að við sjáum fram á bjarta framtíð. Það er vegna þess að hér býr ung, vel menntuð þjóð sem hefur alla burði til þess að ná langt. Við eigum miklar auðlindir og þær koma til með að hjálpa okkur í gegnum þetta skeið ef við höfum burði til þess og sýn á það að nýta okkur þær auðlindir. Ég hef trú á landinu okkar og ég hef enn þá trú á þingmönnum á Alþingi Íslendinga að þeir freisti þess að hindra það að Icesave-samningurinn fari í gegn.

Frú forseti. Ég ítreka að það er ekki í lagi að ástunda þau vinnubrögð sem við höfum séð í þessu máli varðandi þann flýti og það óðagot sem einkennir það. Ég vonast til þess, og ítreka þá beiðni mína, að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að þessi vinnubrögð verði ekki að reglu heldur verði áfram undantekning.