138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[20:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hingað upp vegna umræðu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur um vinnubrögð. Að einhverju leyti held ég að við verðum í þessari stöðu að líta til þeirra óvenjulegu aðstæðna sem nú eru uppi. Hér er verið að vinna björgunarstarf á öllum vígstöðvum. Það eru mörg stór mál undir og við erum í umfangsmeiri niðurskurði en um getur áður í Íslandssögunni.

Hitt er annað mál og ég vil taka undir með henni að það er ekki þægilegt sem þingmaður að vera í þessum sporum, að gera breytingar á umfangsmiklum og veigamiklum lagabálkum við aðstæður sem þessar. Þó vil ég segja varðandi þetta frumvarp og hina andvana fæddu hugmynd um fæðingarorlofið að í raun tók nefndin upp hugmynd sem félags- og tryggingamálaráðherra hafði verið að vinna með og búið var að útfæra í hans ráðuneyti. Sú hugmynd fæddist því ekki á þessum þremur dögum heldur hafði sú vinna verið í gangi í ráðuneytinu um nokkurt skeið, þótt henni hafi verið lítillega breytt með því að halda 80% hlutfalli launa upp að 200 þúsundum.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við tökum til umhugsunar á hvaða hraða við erum að vinna. Núna er það nauðsynlegt. Það má líka minna á að hér var dag eftir dag, viku eftir viku, fundað fram undir morgun um Icesave-málið. Það hefur náttúrlega áhrif á afgreiðslu annarra mála í þinginu en ég held að fyrir þann stóra hóp okkar nýrra þingmanna sé mikilvægt að við trúum því ekki að þetta séu vinnureglur sem við eigum að viðhafa í þinginu til lengri tíma.