138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[20:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu andsvari vil ég víkja orðum mínum að umræðu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur um jafnréttismál. Ég veit að okkur greinir á varðandi hvaða leiðir á að fara í jafnréttismálum þótt ég voni svo sannarlega að við séum sammála um að jafnrétti sé æskilegt.

Mig langaði að koma inn á að hún talaði um að við værum til fyrirmyndar í jafnréttismálum og tók þar sem dæmi hlutföll í sveitarstjórnum. Nú er það svo að á norrænni ráðstefnu um kyn og völd sem var haldin hér í nóvember kom fram í mjög ítarlegri vinnslu fræðimanna af öllum Norðurlöndunum varðandi úttekt á kynjum og völdum að það hefur náðst mjög góður árangur á Norðurlöndum varðandi kynjahlutföll á þjóðþingum en slakari árangur er í sveitarstjórnum, enda hefur það verið tekið hér upp í þinginu af ýmsum þingmönnum. Vil ég nefna hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem hefur verið óþreytt að minna á með alls kyns tillögum mikilvægi þess að reyna að fjölga konum í sveitarstjórnum en það virðist ganga verr en á þjóðþinginu. Ég vil líka minna á að hátt hlutfall kvenna á núverandi þingi er vegna þess að hér unnu kosningasigur Samfylkingin og Vinstri græn sem hafa lagt ríka áherslu á jafnt kynjahlutfall með kvótum á sínum framboðslistum. Árangurinn er fjöldi glæsilegra, frambærilegra og klárra þingkvenna. Engin okkar finnur fyrir niðurlægingu út af þeim kynjakvótum sem eru við lýði í okkar flokkum heldur lítum við á þetta sem styrkleika.