138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[21:17]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fél.- og trn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugavert að heyra frá hæstv. ráðherra, þ.e. þegar samningsaðilar og samstarfsaðilar voru farnir að vera fyrir í vinnunni þá var þeim hent út af borðinu. Þetta er nákvæmlega það sem þeir kvörtuðu yfir. Þeir sögðu: Það var rétt byrjað á því að hafa við okkur samband. Síðan heyrðum við ekkert meira frá ráðuneytinu.

Þetta eru kannski vinnubrögðin sem velferðarstjórnin ætlar að viðhafa í samskiptum sínum við aðila. Þetta eru svo sem sömu vinnubrögðin og við þingmenn erum að kynnast á þingi og svo er kvartað yfir því að það sé tímaskortur til að vinna þetta. Hvað ætli hv. félagsmálanefnd sé búin að hafa mörg mál til umfjöllunar frá því að ríkisstjórnin tók við um mánaðamótin janúar/febrúar? Þau eru ekki mörg, virðulegi forseti. Þau eru sárafá. Það hefði kannski verið nær að fela nefndinni að sjá um þetta fyrir ráðherrann. Hún hefði örugglega gætt þess að hafa betra samráð og náð betri árangri á þeim vettvangi en tekist hefur.

Það er alveg ljóst að þær athugasemdir sem ég las upp áðan, þó að ég sé að blanda saman athugasemdum úr umsögnum um þessi tvö frumvörp, þá á sú gagnrýni við bæði frumvörpin sem eru til umræðu. Það er einmitt vitnað í umsögn um frumvörpin af hálfu Alþýðusambandsins í það að ekki hafi farið fram rannsóknir vegna mögulegra áhrifa þeirra breytinga sem verið er að ákveða í fæðingarorlofskerfinu, hvorki félagsleg né fjárhagsleg. Í því sambandi benda þeir sérstaklega á stöðugleikasáttmálann sem gerður var í júní sl. þar sem gert var ráð fyrir um 5% skerðingu í velferðarkerfinu og Alþýðusambandið leggur til að frumvarpið verði dregið til baka. Ekki af því að menn geri sér ekki grein fyrir því, virðulegi forseti, að það þarf að ná (Forseti hringir.) árangri í efnahagsmálum þjóðarinnar heldur út af því hvernig unnið er og hvernig komið (Forseti hringir.) er fram við þessi samtök, það eru vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar, bæði á þingi (Forseti hringir.) og gagnvart aðilum í samfélaginu.