138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[21:28]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara spurningu hv. þingmanns sé ég fyrir mér kerfi sem er með skýran grunn í tekjustofni. Ég held að tryggingagjaldið sé skynsamlegur stofn og ég held að við eigum að nýta, eins og ég nefndi áðan, svigrúmið sem skapast með minnkandi atvinnuleysi til að finna fæðingarorlofinu fjármögnun þar. Ég held líka að við eigum að bæta verulega hámarksgreiðsluna. Þetta hámark er ekki ásættanlegt við eðlilegar samfélagsaðstæður. Það er ásættanlegur fórnarkostnaður á sama tíma og við erum að skerða ósamningsbundin laun ríkisstarfsmanna. Fullt af fólki er víða í samfélaginu að taka á sig launalækkanir. Það er andrúmsloftið sem við búum við og lifum í núna.

Þetta er tímabundið ástand. Ég sé fyrir mér að forgangsatriðið verði að hækka hámarkið. Ég held að 80% viðmiðið eigi að vera þar inni. Ég held að við eigum að binda skyldur feðra samfelldri töku a.m.k. í tvo mánuði af þremur þannig að þeir fari af vinnumarkaði með sama hætti og konur þurfa að fara af vinnumarkaði en geti ekki valið að taka þetta í litlum bútum og vera þannig í grunninn alltaf tryggara vinnuafl en konur eru. Ég sé fyrir mér kerfi sem hefur frekar ríflega hámarksfjárhæð en hver hún á að vera nákvæmlega fer auðvitað eftir hvert meðallaunastigið í landinu er en það á að vera yfir meðallaunum í landinu.