138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[21:55]
Horfa

Frsm. minni hluta fél.- og trn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að gera mjög alvarlegar athugasemdir við ummæli hv. varaformanns nefndarinnar, Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, áðan og vil ég óska eftir að hún hlusti á mál mitt. Ég er ekki vanur því að sinna ekki vinnu minni á Alþingi, ég hef alltaf séð til þess, ef ég skyldi vera nauðsynlega forfallaður annars staðar, að óska eftir varamanni fyrir mig í þeim nefndum sem ég á að vera. En þegar Alþingi sjálft skipuleggur mig á tvo staði get ég ekkert að því gert og þannig var í þessu tilfelli. Búið var að skipuleggja mig aftur og aftur á tvo staði og að því get ég ekki gert og þá finnst mér að Alþingi sjálft eða nefndasviðið þurfi að leita lausna á því en ekki ég. Þetta er afstaða mín. Mér finnst það virkilega ómaklegt hjá hv. þingmanni að koma svona að mér. Ég hef setið hérna kvöld eftir kvöld og langt fram á morgna, sofið einn tíma á nóttunni og mætt svo á nefndarfundi stundvíslega. Ég er virkilega sár yfir þessu.

Nefndarálitið. Minni hlutinn gerir alvarlega athugasemd við þann hraða og óðagot, eins og allt annað hérna, sem einkennir framlagningu og vinnslu frumvarpsins. Ríkisstjórnin hefur haft nærri 11 mánuði til að semja þessi frumvörp og það á ekki að þurfa að koma með þau með svona gífurlegum hraða rétt fyrir lok ársins. Umsagnaraðilar allir kvörtuðu undan tímaleysi og naumum tíma svo ég tali ekki um hve mikil hætta er á því að villa verði gerð í lagasetningu sem er mjög alvarlegt. Svo kvörtuðu umsagnaraðilar líka undan því að ekkert samráð hafi verið við þá haft og væri það einsdæmi líka. Þetta er allt á sömu bókina lært.

Við tökum undir það sem var í frumvarpinu að það sé markmiðið að koma á meiri festu við framkvæmd atvinnuleysistrygginga, að koma í veg fyrir misnotkun og auka virkni atvinnuleitenda. Þetta erum við búin að fara í gegnum allt saman. Þess vegna vekja breytingartillögur meiri hlutans furðu, þær ganga út á að veikja aftur þetta eftirlit með kerfinu og það sem upphaflega var lagt af stað með. Ákvæði frumvarpsins gekk út á það að veita Vinnumálastofnun nauðsynleg tæki til að taka á þeim sem gerast brotlegir við lögin. Ég er þá að tala um fólk sem brýtur lögin, frú forseti, ekki einhverja sem hafa þörf á því heldur einhverja sem ekki hafa þörf á því að fá bætur og brjóta lögin með einhverjum hætti, svíkja út atvinnuleysisbætur og eru í reynd að taka fé með sviksamlegum hætti úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar. Einmitt núna þegar mest á reynir kemur í ljós að fólk er að misnota kerfið, það hefur komið í stórum stíl í ljós að fólk er að misnota kerfið, einmitt nú þegar er kreppa og spara þarf alls staðar og allir eiga að standa saman er virkilega til fólk í landinu sem er í fullri vinnu og misnotar kerfið. Og eins og hingað til á að taka á þessu fólki með því að klappa því á öxlina og segja: Svona gerir maður ekki, þetta er ljótt. Haltu bara áfram. Og meiri hluti nefndarinnar leggur til að þessi ákvæði sem átti að skerpa á séu veikt aftur.

Á fundi nefndarinnar kom fram að miðlun, eftirfylgni, aðstoð og annarri þjónustu Vinnumálastofnunar sé ábótavant og telur minni hlutinn að skoði beri alvarlega að flytja Atvinnuleysistryggingasjóð til aðila vinnumarkaðarins sem eru mun nær atvinnulífinu og betur til þess fallnir að sinna verkefninu. Þetta finnst mér þurfa að skoða. Þá tekur minni hlutinn undir þau sjónarmið sem höfð eru uppi í nefndinni að stór hluti þess vandamáls sem glímt er við sé skortur á atvinnu frekar en atvinnulaust fólk. Það er ekki atvinnulausa fólkið sem er vandamál, vandamálið er skortur á atvinnu. Meiri hlutinn leggur ekki áherslu á sköpun starfa eða raunhæfar lausnir til eflingar atvinnulífi og átelur minni hlutinn hann fyrir það. Vil ég í því sambandi nefna öll þau skattalagafrumvörp sem núna eru á döfinni sem gera ekkert annað en minnka atvinnu í landinu.

Samband íslenskra sveitarfélaga gagnrýnir harðlega að frumvarpið sé lagt fram án þess að metinn sé kostnaðarauki sveitarfélaganna vegna breytinganna eins og skylt er samkvæmt samkomulagi Sambands íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra frá 30. desember 2005 um kostnaðarmat lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla gagnvart sveitarfélögunum. Sambandið telur að umtalsverður kostnaðarauki fyrir sveitarfélögin felist í þessum breytingum, m.a. vegna framfærslu námsmanna í námshléum. Minni hlutinn tekur undir þessa gagnrýni og átelur að ekki hafi verið leitað leiða til að vinna úr þessu vandamáli í nefndinni eða einfaldlega hafna þessari breytingu þar til heildstæð lausn liggur fyrir.

Í 28. gr. frumvarpsins er lagt til að sveitarfélög geti sett þau skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð að sá sem sækir um slíka aðstoð sé í virkri atvinnuleit eða taki þátt í vinnumarkaðsaðgerðum. Þarna finnst mér að hafi vantað bara eitt orð, vinnumarkaðsaðgerðum Vinnumálastofnunar. Þá hefði þetta verið alveg á tæru. En þetta ákvæði þarf að skoða miklu betur og við tökum undir það að fresta því en leggjum til að nefndin, þ.e. hv. félags- og tryggingamálanefnd, fari strax í gang með það að vinna sjálf að því að leysa þetta vandamál á milli sveitarfélaganna og Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það getur ekki verið, frú forseti, að sveitarfélögin eða framfærsluskylda sveitarfélaga nái yfir fólk sem ekki vill vinna, það getur ekki verið. Framfærsluskylda sveitarfélaga er gagnvart einstaklingum sem þurfa hjálpar við, ekki fyrir þá sem ákveða að vinna ekki og þurfa engrar hjálpar við, gætu algerlega bjargað sér ef þeir kærðu sig um. Ég held að þetta þurfi að kanna miklu betur og nefndin geti sjálf farið í gegnum það hvernig þessi grein eigi að orðast. Ég legg til að hún geri það sem allra fyrst og komi svo með breytingartillögu svipaða og 28. gr. frumvarpsins, þannig að sveitarfélögin geti tekið á því fólki sem ekki vill taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum og leitar til sveitarfélaganna. Því miður er margt af því ungt fólk og ég held að kerfið í dag sé að leiða mjög margan ungan manninn og konuna inn á villigötur sem reynist viðkomandi einstaklingum afskaplega slæmt þegar fram líða stundir, skortur á menntun, skortur á þekkingu, skortur á reynslu, skortur á því að hafa komið sér áfram, og verði algerlega háðir einhverju velferðarkerfi. Það er eitthvað sem ég vil ekki. Ég vil að velferðarkerfið sé fyrir þá sem virkilega þurfa á því að halda vegna þess að þeir verða fyrir áföllum í lífinu en ekki vegna þess að þeir hafi lent inn á einhverju kerfi.

Við undirstrikum aftur að það eru forkastanleg vinnubrögð að leggja frumvarpið svona seint fram sem raun ber vitni og afgreiða það eftir svo skamman tíma í nefnd. Þá telur minni hlutinn breytingartillögur meiri hlutans til þess fallnar að skaða málið frekar en hitt.

Undir nefndarálit þetta rita hv. þm. Pétur H. Blöndal framsögumaður og hv. þm. Jón Gunnarsson.