138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[22:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að biðja hv. þm. Pétur H. Blöndal afsökunar. Mér þykir fyrir því að hann hafi upplifað orð mín með þessum hætti. Ég sit með hv. þingmanni í tveimur nefndum og veit að fáir eru vinnusamari en hann hér í þinginu. Það sem ég átti við var — og ég átti við sama vandamál að glíma, að vera skipulögð á tvo fundi samtímis — að það hefði mátt kalla inn varafulltrúa. Ég var sjálf óánægð með að geta ekki setið í báðum mínum nefndum, en við vorum líka hér daga og nætur áður í umræðum um Icesave sem gerði það að verkum að nefndastörf frestuðust. Þess vegna var þessi samþjöppun í nefndatöflu. Ég vil sem sagt endurtaka afsökunarbeiðni mína til hv. þm. Péturs H. Blöndals, ég ætlaði mér ekki með neinu móti að gefa í skyn að hann sinnti ekki þingstörfum með miklum sóma.

Ég er sammála hv. þingmanni um það að við erum að draga úr viðurlögum en við tökum heils hugar undir með því að tryggja tæki fyrir Vinnumálastofnun til að koma í veg fyrir eða sanna bótasvindl. Þetta teljum við grundvallaratriði til þess að sátt ríki um okkar kerfi og að það sé ekki misnotað. En við töldum ákvæðin um lengingu biðtíma ekki nægilega rökstudd þar sem fram kom að Vinnumálastofnun virðist ekki nota þessi úrræði mikið og teljum við því alvarlegt að herða viðurlög sem gætu haft ófyrirséðar afleiðingar á svo skömmum tíma. Nú eru þetta breytingar sem varða ekki fjárlögin en við teljum að vel megi skoða þetta nánar, en við töldum ekki eðlilegt á svo stuttum tíma að gera svo viðamiklar breytingar enda (Forseti hringir.) virðist þetta ekki vera aðkallandi vandamál hjá Vinnumálastofnun.