138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[22:05]
Horfa

Frsm. minni hluta fél.- og trn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek afsökunarbeiðni hv. þingmanns, hún er maður að meiri.

Varðandi það að mikilvægt sé að komast að því hverjir séu að brjóta lögin hefur það nú ekki þótt vera nóg í skattalögunum að komast að því. Þar eru mjög ströng viðurlög, dagsektir upp á 1% á dag í staðgreiðslunni, síðan álög, dráttarvextir o.s.frv. og ef í harðbakkann slær lenda menn í fangelsi. Margir hafa lent í fangelsi fyrir það að hafa ekki staðið skil á sköttum sem þeim bar að borga til ríkisins. Ég sé engan mun á þeim og hinum sem eru að taka úr sameiginlegum sjóðum án þess að eiga rétt á því. Ég sé ekki stóran mun á því. Það er ekki nóg að finna út úr því hverjir eru að gera það, það þarf líka að hafa refsingar við því og þær eru allt of veikar.

Þetta er nú kannski það sem er vandamálið í kerfinu í dag að refsingarnar eru svo veikar að kerfið er illilega misnotað. Það gerir það að verkum að skoðun almennings á þessum bótakerfum okkar er sú að þau séu ekki nægilega trúverðug. Menn hafa ekki nægilega mikið traust á þeim og menn kannski skynja þau ekki sem slík, en bótakerfi eru alltaf ætluð til þess að bæta þeim sem hafa farið halloka það upp úr sameiginlegum sjóðum þannig að þeir megi komast af með sæmilegum hætti. Öll misnotkun er mjög skaðleg fyrir þá sem þurfa á kerfinu að halda. Það er líka mjög skaðlegt hvað varðar vilja skattgreiðenda til að borga inn í kerfið. Auðvitað kemst slík misnotkun upp út um allt í kerfinu og fólk þekkir því miður allt of margar sögur af misnotkun sem ekki er gott fyrir kerfið.