138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[22:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er fegin að hv. þingmaður tók vel undir afsökunarbeiðni mína enda er okkur vel til vina og mér hefði þótt það erfitt að hann væri mér reiður til lengri tíma.

Meiri hluti nefndarinnar er algjörlega sammála því að koma þurfi í veg fyrir misnotkun á sameiginlegu tryggingakerfi borgaranna. Það hlýtur að vera grundvallaratriði til að sátt ríki um þau tryggingakerfi sem við höfum sem halda uppi velferð hér í landinu. En við töldum að með lengingu á viðurlögum gætum við verið að reiða hátt til höggs gagnvart þeim hópi sem er hvað veikastur á íslenskum vinnumarkaði. Þetta þýðir ekki að við teljum ekki ástæðu til að skoða hvort við séum með of mikla linkind við þá sem eru kannski alls ekki í viðkvæmri stöðu heldur eru óprúttnir, en við töldum að þarna værum við að skjóta spörfugl með fallbyssu.

Atvinnuleysi og atvinnuleysistryggingar eiga eftir að taka mikinn tíma félags- og tryggingamálanefndar á komandi vorþingi. Þar þurfum við bæði að fara ofan í saumana á því hvernig verið er að vinna með vinnumarkaðsúrræði, hvernig verið er að aðstoða þá sem eiga við langtímaatvinnuleysi að stríða og hvernig verið er að aðstoða ungt fólk með litla menntun, sem er fjölmennasti hópurinn á atvinnuleysisskrá. Þá munum við líka fara yfir það með Vinnumálastofnun hvort hún telji að herða þurfi á viðurlögum eða hvort þau tæki sem við gáfum henni til að koma í veg fyrir bótasvindl dugi.