138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[22:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar í þessu andsvari mínu að staldra við sveitarfélögin og samskipti sveitarfélaga og ríkisvaldsins. Auðvitað eru þau með ýmsum hætti en oft og tíðum virðast koma upp svona vandamál, að það er eins og það búi ekki sama fólk í ríkinu og í sveitarfélögunum. Ég held að það sé hlutverk okkar allra sem sitjum á Alþingi í dag að bæta þau samskipti og tryggja þau því að það er íslenskum almenningi til hagsbóta að þau séu sem best.

Einn af mikilvægu þáttunum í því að bæta þessi samskipti er fækkun sveitarfélaga, að þau verði sterkari og öflugri. Fyrirhugað er að færa frekari verkefni yfir til sveitarfélaganna með þjónustu við aldraða og fatlaða, að sveitarfélögin verði þar með sterkari einingar. Við þurfum að koma á þannig samskiptum að ljóst sé að einn velti ekki kostnaði yfir á annan heldur sé litið svo á að það sé sameiginlegt verkefni að tryggja fjármögnun á þjónustu og stoðkerfi í ríkinu og sveitarfélögunum.