138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[22:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég er reyndar ekki alveg sammála henni um það að hæstv. ríkisstjórn standi sig vel og hafi mikið verksvit. Ég hef oft sagt það í þessum ræðustól að ég tel hæstv. ríkisstjórn ekki hafa mikið verksvit því að við erum búin að eyða miklum tíma í mál sem við hefðum getað geymt. Það er mín persónulega skoðun. Við hefðum getað staðið betur að verkum.

Ég var ekki að halda því fram áðan að ég væri að kvarta yfir einhverju vinnuálagi, ég var alls ekki að gera það, því að ég er vanur að vinna mikið og hef alla tíð gert. En það sem ég átti við var að við mundum forgangsraða betur — við höfum verið með fullt af málum sem við hefðum getað sleppt og eru ekki bráðavandi heimilanna eða fyrirtækjanna — sem ég tel að við höfum ekki gert nægilega vel. Ég efast ekki um að hv. þingmaður taki undir það með mér.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um eitt atriði. Það er reynsla erlendis frá að ef ungt fólk lendir í því að verða atvinnulaust getur það lent í gildrum. Mörg dæmi eru um að kynslóðir eftir kynslóðir lenda í slíku. Deilir hv. þingmaður því með mér að við verðum að passa mjög vandlega að það gerist ekki hér?

Eins vil ég taka undir með hv. þingmanni að auðvitað er það fín lína sem við verðum að fara þegar við setjum strangar reglur og ströng viðurlög, ég tek alveg heils hugar undir það. Eigi að síður hlýtur að vera eitthvað að hér á landi á meðan við erum með svona hátt atvinnuleysisstig, því miður, að við þurfum á sama tíma að flytja inn vinnuafl til að vinna ákveðin störf. Íslensk þjóð verður að fara að núllstilla sig upp á nýtt, þ.e. ef menn geta fengið vinnu verða þeir að fara í hana. Hægt er að nefna mörg dæmi um að þar sem vantar jafnvel tugi manna í vinnu, kannski í hálft ár eða svo, er verið að flytja um 70–80% af því starfsfólki inn erlendis frá. Það kemur alltaf niður á hinum endanum, þá verður ríkisvaldið annaðhvort að hækka skatta eða draga úr útgjöldum. Við vitum hvar það kemur verst niður.