138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[23:14]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum aldeilis farið vítt og breitt um landið og miðin í umræðunni um atvinnuleysistryggingar og fleira en ég vil fá að spyrja þingmanninn sérstaklega út í það sem hún sagði um Evrópusambandið og atvinnuleysi innan þess. Nú eru það náttúrlega þekktar stærðir að í löndum eins og Danmörku er atvinnustigið á fínum stað þrátt fyrir að það land sé í Evrópusambandinu. En mér finnst gaman að hlusta á þennan málflutning núna þegar við Íslendingar stöndum frammi fyrir því að ákveða hvort við viljum ganga alla leið inn í Evrópusambandið. Það er mjög skemmtilegt að bera það saman við þá umræðu sem átti sér stað áður en Ísland ákvað að ganga í EES. Til dæmis minnist ég tilvitnunar sem höfð hefur verið eftir Páli Péturssyni. Hún var afskaplega skemmtileg, ég er því miður ekki með hana með mér núna en hún fjallaði um það að við inngönguna í Evrópska efnahagssvæðið mundi atvinnuleysi á Íslandi aukast og verða eins og það var þá í sumum aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Ég vil spyrja hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur hvort hún telji ekki að hér sé um einhvern hræðsluáróður að ræða í ljósi þess að engar af þeim tröllasögum og spám sem hafðar voru uppi við inngönguna í EES rættust, nema kannski núna vegna þess að það atvinnustig sem ríkti í góðærinu undir forustu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var ekki byggt á raunveruleika, var byggt á lántökum má segja. Ég er spennt að heyra frá hv. þingmanni um þetta. (Gripið fram í.)