138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[23:19]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér í lokin var spurt um einfalda staðreynd. Svarið við þeirri spurningu er jú. Samfylkingin var í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Nú getum við haldið áfram að tala um hitt.

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir minntist á atvinnuleysi ungs fólks í Svíþjóð sem flykkist yfir til Noregs. Þar vil ég benda á að hægri menn hafa haldið um stjórnartaumana undanfarin ár enda hefur fylgi þeirra verið á hraðri niðurleið og þeir eru á leiðinni frá stjórninni af því að þar er jafnaðarmönnum betur treystandi og betur treyst fyrir því að halda uppi öflugu atvinnulífi.

Svo finnst mér hv. þingmaður ekki hafa svarað þeirri spurningu minni sem lýtur að því að sumar spár voru hafðar uppi um það atvinnuleysi sem hér mundi ríkja við það að ganga inn í Evrópska efnahagssvæðið og hv. þingmaður hafði uppi. Þar sem þetta gerðist ekki við að ganga inn í EES sem var miklu stærri ákvörðun en nokkurn tíma að ganga alla leið inn í Evrópusambandið (Gripið fram í.) — ef hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur skoðun á þessu tjáir hann sig um það einhvers staðar annars staðar en í ræðu minni, en ég vil fá að heyra um þetta.

Ég vil einnig spyrja hv. þingmann: Hefði Ísland lent í því alvarlega höggi og efnahagshruni sem hér varð hefðum við verið aðilar að Evrópusambandinu og haft evruna sem gjaldmiðil? Hefði það ekki mildað það högg sem við urðum fyrir og hefði jafnvel getað komið í veg fyrir að við yrðum fyrir þessu áfalli?