138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[23:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég harma að hafa ekki verið nógu skýr í tali áðan en ég tel að atvinnuleysið og þetta atvinnuleysisstig fylgi evrunni. Evran fylgir því ekki að ganga í ESB, þar liggur kannski skoðanamunur okkar. Við verðum eflaust aldrei sammála um þetta mál og eigum eflaust eftir að takast á um það á þessum vettvangi og annars staðar á komandi mánuðum og það verður skemmtilegt vegna þess að hv. þingmaður hefur sýnt það í störfum sínum að þingmaðurinn er mjög málefnalegur, frú forseti, það verður því ánægjulegt að fá að sjá það.

Aðeins varðandi félaga mína, hægri mennina í Svíþjóð í Moderata, þá hafa þeir verið í ríkisstjórn í nokkra mánuði, tvö ár eða eitthvað slíkt (Gripið fram í: Þrjú ár.) já, og er það þá ekki bara svipað og hv. samþingmenn, flokksmenn hv. þingmanns hafa lýst yfir, að þeir beri enga ábyrgð á neinu þar sem þeir hafi bara verið stutt í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum? Reyndar er ég ekki sammála því en það væri hægt að hártogast um hlutina á þennan hátt. Ég fagna því sérstaklega að hv. þingmaður hafi gefið yfirlýsingu um að viðurkenna það að Samfylkingin hafi verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Það er gríðarlega ánægjulegt.

Frú forseti. Ég tel ekki að það hefði bjargað okkur að vera orðnir aðilar að ESB þegar október 2008 rann í garð, ég tel það ekki. Ef við horfum á lönd sem eru í Evrópusambandinu, sem eru núna að lenda í alvarlegri kreppu, við getum talað um Írland og Grikkland, við getum talað um fleiri lönd í Evrópu sem eiga því miður á næstu vikum og næstu mánuðum eftir að lenda mjög illa í kreppunni, þá er það algerlega ljóst að ekki er nein björgun í því að vera í Evrópusambandinu. Hvað segir Evrópusambandið núna við Grikki? Ekki ætlar það að hjálpa þeim. Ekki ætlar það að koma með efnahagsaðstoð, efnahagspakka til bjargar Grikkjum. Það bendir þeim bara á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ekki ætla stóru löndin í Evrópu að fara að aðstoða Grikki og ekki hefðu þau gert það fyrir okkur heldur.