138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[23:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, þar sem hann talar um að menn ætli að fara að leiðrétta þennan mismun sem verður á milli sveitarfélaga og ríkisins, mig að spyrja hæstv. ráðherra um það af því að nú hefur þetta yfirleitt farið þannig fram að menn gera þetta í gegnum jöfnunarsjóð með mjög flóknum úrræðum og ógagnsæjum. Hvað finnst hæstv. ráðherra um það að menn einangri bara málin og lagi síðan þær breytingar sem þetta hefur á tekjustofna sveitarfélaga annars vegar og ríkisins hins vegar, geri það bara á mjög einfaldan hátt? Það liggi alveg fyrir hvernig þetta gerist, þannig að menn þurfi ekki að fara í mjög flóknar viðræður og hvernig eigi að gera þetta í sambandi við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Nógu er það nú flókið fyrirbæri, virðulegi forseti.

Hæstv. ráðherra kom líka inn á svokallaðar hlutabætur í ræðu sinni, að hann mundi skoða það og fara yfir það, ef ég hef tekið rétt eftir, og mig langar þá að spyrja hæstv. ráðherra, það hafa verið brögð að því að menn misnoti þetta og líka atvinnurekendur. Maður hefur heyrt sögur af því að sumir atvinnurekendur hafi látið fólk fara á 30–40% bætur hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og síðan látið fólkið mæta samt 100% í vinnu. Mikilvægt er að þetta verði skoðað.

Eins kom það líka fram í hv. fjárlaganefnd að nokkrar ríkisstofnanir eru að hagræða í rekstri sínum núna með því að skerða starfshlutfall hjá starfsfólki og láta það síðan sækja um atvinnuleysisbætur á móti. Þá erum við í raun og veru að færa úr hægri vasanum yfir í þann vinstri. Telur hæstv. ráðherra ekki mikilvægt að þetta verði skoðað sérstaklega, þannig að stofnanir mæti ekki niðurskurði hjá sér með mismunandi hætti? Af því að sumir hafa mikið hugmyndaflug, margir forstöðumenn, og það eru brögð að því að sumar stofnanir hafi þegar nýtt sér þetta í töluverðum mæli, mjög margar ríkisstofnanir hafa einmitt verið að spyrja út í það hvernig þær geti nýtt þetta. Er þetta ekki mál sem þarf að skoða sérstaklega þannig að niðurskurðurinn komi réttlátlega niður á allar stofnanir sem fá hann?