138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[23:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir prýðilega málefnalega og góða ræðu. Ég ætla að spyrja hann þriggja spurninga í kjölfarið. Í fyrsta lagi fannst mér hæstv. ráðherra opna á það að Samtök atvinnulífsins og ASÍ kæmu meira að málum, og þá er ég að vísa í að forustumenn þeirra komu með hugmyndir um að þeir mundu taka yfir Atvinnuleysistryggingasjóð og koma nákvæmlega að því eins og mér fannst hæstv. ráðherra ýja að, að fyrsti viðkomustaðurinn væri hjá verkalýðsfélögunum þegar fólk er atvinnulaust eins og var áður og þótti takast vel. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að hann blés þetta af borðinu á sínum tíma, hvort þetta sé eitthvað sem kæmi til greina.

Í öðru lagi fór hæstv. ráðherra yfir það sem er augljóst að það er ekki mikill sveigjanleiki í stjórnkerfinu. Hann fór yfir það í löngu máli hve mikið væri að gera hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu út af þeirri stöðu sem er uppi núna og það er auðvitað ekki gott og mikilvægt að það gangi vel hjá því ráðuneyti. En nú er uppi mál sem miðar að því að taka heilbrigðisþjónustuna og færa heilbrigðisráðuneytið yfir í félags- og tryggingamálaráðuneyti. Ef það væri meira í umræðunni væri það mjög umdeilt og það er umdeilt í þinginu og í þingnefndum. Telur hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra ekki skynsamlegt að hinkra með það, m.a. af mörgum ástæðum sem ég ætla ekki að nefna hér, ég get kannski gert það á eftir í ræðu minni, en m.a. út af önnum í félagsmálaráðuneytinu?

Í þriðja lagi, hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur — hann talaði eins og atvinnuleysi sé ekki ESB að kenna í ESB-löndunum — af þessum ósveigjanlega vinnumarkaði sem þar er og að við séum að stíga það skref svona almennt, ég er ekki að vísa sérstaklega til þessa frumvarps en að við gætum farið þá leiðina sem án nokkurs vafa ýtir undir atvinnuleysi?