138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[23:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki þeirri spurningu hvort það væri ekki skynsamlegt, m.a. af þeirri ástæðu sem hann nefndi áðan, hve mikið væri að gera hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Það hefur komið fram líka í nefndum að félags- og tryggingamálaráðuneytið er ekki tilbúið til að taka yfir hluta af heilbrigðisþjónustunni eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu, fyrir utan það að ekki hafa komið nein fagleg rök fyrir því að taka hana yfir og þekkjum við það vel báðir ég og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra. Ég ætla ekki að hafa stór orð um það en ég vil spyrja hann m.a. út af þeim rökum sem hæstv. ráðherra fór nákvæmlega yfir áðan, að hann hefði þurft að fá fólk í sjálfboðavinnu til að vinna að ýmsum verkefnum hjá ráðuneytinu vegna þess að það er svo mikið að gera, og það eitt og sér væri næg ástæða til að hinkra með hluti sem alls ekki hafa verið undirbúnir eins og það að færa hluta heilbrigðisþjónustunnar yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra aftur um þetta af því að hann náði ekki að svara því áðan.

Ég er ánægður að heyra að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hafi það á stefnu sinni að hafa vinnumarkaðinn sveigjanlegan og ánægður með að hann opni á samstarf við SA og ASÍ. Ég held hins vegar að menn eigi ekki að vera hræddir við að hugsa stórt þegar kemur að lausnum og þessar hugmyndir frá aðilum vinnumarkaðarins um að koma að og reka Atvinnuleysistryggingasjóð finnst mér ekki stórkarlalegar. Mér finnst þær vera þess virði að við setjumst yfir þær og skoðum þær því að hægt væri að leysa mjög margt í því og mér fannst hæstv. ráðherra koma með mörg rök einmitt í því sambandi og m.a. að þetta þéttofna net verkalýðshreyfingarinnar er til staðar og gæti örugglega tekið við þessu verkefni.

Síðan vil ég hvetja hæstv. ráðherra til að kynna sér þennan ósveigjanlega vinnumarkað sem við þekkjum í Evrópusambandinu og hvaða afleiðingar það hefur, því að vítin eru til að varast þau og við höfum tekið upp ýmislegt frá Evrópusambandinu sem við hefðum ekki átt að taka upp og við getum rætt seinna.