138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[23:58]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst er bara til að taka að það er líka til mjög sveigjanlegur vinnumarkaður í Evrópusambandinu. Það er ekki til neitt sem heitir einn vinnumarkaður í Evrópusambandinu.

Varðandi hjúkrunarheimilin held ég að hv. þingmaður þurfi aðeins að fara að rifja upp. Þegar hann var heilbrigðisráðherra var samið um það í tíð þeirrar ríkisstjórnar, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, að öldrunarmál flyttust yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Í kjölfar þess er núna verið að flytja rekstrarheimildir fyrir hjúkrunarrými, það er ekki verið að flytja heilbrigðisþjónustu yfir, það er aðeins of stórkarlaleg lýsing fyrir minn smekk. Ekki ætlum við að fara að hjúkra fólki í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, við ætlum hins vegar að taka yfir rekstrarheimildir þessara heimila. Heilbrigðisþjónustan verður auðvitað áfram á forræði fagfólks sem lýtur eftirliti landlæknis. Þetta er algerlega vandalaus yfirfærsla og hún hefur verið mjög vel undirbúin. Verkefnisstjórn er að störfum sem vinnur mjög vel að þessari yfirfærslu og gerir þetta afskaplega vel. Það er vandræðalaust að flytja þetta yfir. Þetta er hluti af þeirri stefnumörkun að öldrun sé ekki sjúkdómur heldur aðstæður fólks sem eigi að líta á út frá félagslegu sjónarmiði en ekki heilsufarsvandamál í grunninn. Þetta er stefnumörkun sem nýtur gríðarlegs fylgis meðal hagsmunasamtaka eldri borgara og ég skil satt að segja ekki á hvaða vegferð hv. þingmaður er að reyna að halda í fortíðina og reyna að sjúkdómavæða öldrun sem maður hélt að væri verkefni sem allir með einhvern metnað í öldrunarmálum væru fyrir löngu búnir að hverfa frá. Auðvitað er það mikilvægt verkefni og hluti af heildstæðri félagsþjónustu í landinu að öldrunarþjónusta sé hluti af úrræðum félags- og tryggingamálaráðuneytisins þangað til við flytjum þennan málaflokk til sveitarfélaganna sem ég tel að best væri að gera.