138. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2009.

fjármálafyrirtæki.

258. mál
[00:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem hér liggur fyrir er eitt af þeim frumvörpum sem fengið hefur nokkuð skjóta meðferð hér í þinginu nú á síðustu dögum. Ástæðan fyrir því er væntanlega sú að flestir þingmenn sem að þessu hafa komið hafa talið að í því gætu falist eðlileg og málefnaleg sjónarmið, þ.e. að slit eða uppgjör á eignum fjármálafyrirtækja geti verið flóknari og tekið lengri tíma en almennt gerist um gjaldþrot fyrirtækja, en reglurnar um fjármálafyrirtæki eru í dag miðaðar við almennar reglur gjaldþrotalaga í sambandi við riftun gerninga.

Það skilja allir og reynslan sýnir það að ferlið sem fer í gang þegar greiða þarf úr búum fjármálafyrirtækja getur verið mjög langvinnt og flókið. Það kann að kalla á breytingu af því tagi sem hér er lögð til. Mér sýnist því að fyrir þessari tillögu frumvarpsins séu ágæt málefnaleg rök þó að ég hafi ekki átt þess kost að fjalla mikið um þetta eða koma að þessu á fyrri stigum vinnunnar hér í þinginu.

Það eru tvö atriði sem ég velti fyrir mér sem mér finnst kannski ekki svarað í nefndaráliti hv. viðskiptanefndar og ég spyr hvort ekki sé æskilegt að nefndin hugi að áður en málinu verður lokið hér í þinginu. Það er almennt um samspil þeirrar sérreglu sem hér er lögð til og almennra réttarfarsreglna. Það er rétt að hægt er að setja sérstakar reglur um þessi atriði sem varða fjármálafyrirtæki en engu að síður kann að vera nauðsynlegt að skoða hvernig þessi sérregla fellur að almennum reglum réttarfarslaganna, þ.e. laga á sviði fullnustu réttarfars og af greinargerð með frumvarpinu og nefndaráliti er ekki að sjá að þetta hafi verið skoðað mjög náið.

Hitt atriðið sem ég vildi velta upp hérna, og teldi í raun að hv. viðskiptanefnd þyrfti að skoða milli 2. og 3. umr., er spurning um hugsanlega afturvirkni lagabreytingar af þessu tagi því að í íslenskum rétti gildir sú meginregla að lagaákvæði geti ekki verið afturvirk, allavega eru þröngar skorður settar við afturvirkni. Af greinargerð með frumvarpinu og nefndarálitinu er ljóst að ákvæðinu er m.a. ætlað að taka til atvika sem geta hafa orðið fyrir fall bankanna haustið 2008. Það kann að vera, án þess að ég hafi haft tækifæri til að skoða það í þaula, að almenn sjónarmið íslensks réttarfars um afturvirkni geti komið í veg fyrir að þessari reglu, verði hún að lögum, verði beitt um þessi tilvik, einfaldlega vegna þess að hér er um nýja reglu að ræða og það gæti verið litið svo á fyrir dómstólum að verið væri að setja reglu sem ætti við um tilvik sem átt hafa sér stað í tíð eldri laga og löggjafanum kunna að vera settar skorður um það hvernig slíku nýju ákvæði er beitt um atvik sem orðið hafa fyrir kannski tveimur árum. Ég tel því mikilvægt að hv. viðskiptanefnd fari yfir þetta þannig að það liggi ljóst fyrir, eða a.m.k. eins og hægt er, þegar þingið afgreiðir málið endanlega frá sér, hvort um slíka afturvirkni geti verið að ræða í þessu tilviki, hvort það sé einfaldlega mögulegt þannig að löggjafinn svari þeim spurningum sem kunna að vakna um þetta, en þetta þurfi ekki, þegar kemur hugsanlega að beitingu þessa ákvæðis, að verða deilumál fyrir dómstólum.

Ég held að það væri æskilegt og mundi stinga því að hv. viðskiptanefnd að hún ætti samræður um þessi tvö atriði við sérfræðinga á sviði réttarfars út frá þessum tveimur sjónarmiðum, annars vegar spurningunni um það hvort um kann að vera að ræða einhverja árekstra milli þessarar reglu og annarra reglna um fullnusturéttarfar og hins vegar hvort afturvirkni geti valdið einhverjum vandræðum í þessu sambandi þannig að þessari reglu, verði hún að lögum, verði einfaldlega ekki hægt að beita gagnvart þeim tilvikum sem áttu sér stað í aðdraganda bankahrunsins 2008.

En ég endurtek það sem ég sagði í upphafi að fyrir þessari tillögu, sem er í frumvarpi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, eru á margan hátt málefnaleg rök sem eru vel þess virði að þau séu skoðuð og ég geri ráð fyrir því að þær ábendingar sem fram hafa komið, m.a. frá slitastjórnum bankanna, séu ekki að tilefnislausu. Ég dreg það ekki í efa að menn séu að reka sig á vandkvæði hvað þetta varðar. En út frá sjónarmiðum um vandaða lagasetningu og lagasetningu sem stenst held ég að það þyrfti að gefa þessum tveimur þáttum gaum áður en til 3. umr. og lokaafgreiðslu málsins kemur hér á þingi.