138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

störf lögreglunnar og ummæli heilbrigðisráðherra.

[10:34]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að starf lögreglu er vandasamt og mikið hefur mætt á henni þetta ár. Í því ástandi sem hefur ríkt frá því að bankarnir hrundu hefur komið berlega í ljós að almenningur treystir lögreglunni. Ég hef einmitt sagt að það traust lýsi því að lögreglan starfræki störf sín af mikilli fagmennsku og vandvirkni og störf lögreglunnar eru afar mikilvæg.

Hvað varðar ummæli einstakra ráðherra um lögregluna hef ég svo sem ekkert um þau að segja. Þeir verða að svara fyrir sín ummæli sjálfir en hvað varðar viðhorf gagnvart lögreglu hefur sú sem hér stendur þau viðhorf til lögreglu að hún hafi afar vandasamt starf með höndum og þess þurfi að gæta vel í hagræðingu og niðurskurði að ganga ekki að kjarnastarfsemi lögreglu svo hún geti sinnt sinni grunnþjónustu.