138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

störf lögreglunnar og ummæli heilbrigðisráðherra.

[10:35]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Um það er ekki deilt að almenningur ber mikið traust til lögreglunnar í landinu en það er ekki síður mikilvægt að æðsta stjórn ríkisins beri traust til löggæslunnar með sama hætti og sýni henni líka ákveðinn skilning við erfiðar aðstæður. Þess vegna held ég nauðsynlegt sé að fá svar frá hæstv. dómsmálaráðherra hvort hún sé sammála hæstv. heilbrigðisráðherra sem kallar þá atburði sem urðu hefndaraðgerð lögreglunnar. Telur hún að svo hafi verið? Telur hún að þarna hafi verið um hefndaraðgerð að ræða þegar lögreglan í landinu var að sinna sínu grundvallarhlutverki að verja borgarana og öryggi þeirra? Hver er skoðun hæstv. dómsmálaráðherra, sem er æðsti yfirmaður löggæslunnar í landinu, er hún sammála hæstv. heilbrigðisráðherra hvað þetta varðar?