138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

skattaáform ríkisstjórnarinnar.

[10:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum á þessu haustþingi verið að kryfja fjárlagafrumvarpið og við sjálfstæðismenn höfum í þeirri umræðu haft frammi mikla gagnrýni á skattaáform ríkisstjórnarinnar. Meðal þess sem við höfum bent á er að öfugt við það sem ríkisstjórnin heldur fram aukast byrðar á alla með þeim skattaáformum sem fram koma í tillögum ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur þó kynnt skattaáform sín þannig að allir þeir sem hafa laun undir 270 þús. kr. megi vel við una því þeim sé hlíft sérstaklega. Að okkar áliti stenst þessi málflutningur enga skoðun. Þegar maður skoðar þann ávöxt ríkisstjórnarsamstarfsins sem skattatillögurnar eru og byrjar að flysja utan af þeim og komast að kjarnanum sér maður atriði eins og að hér er verið að afnema verðtrygginguna sem í gildandi lögum mundi leiða til töluverðrar hækkunar á persónuafslætti núna strax um áramótin. Það er líka verið að fella úr gildi fyrri samninga um viðbótarhækkanir umfram verðlag á persónuafslættinum, samkomulag sem gert var í tíð eldri ríkisstjórnar.

Á undanförnum dögum hafa ýmsir verið að átta sig á þessum blekkingum ríkisstjórnarinnar. Þess vegna ályktaði miðstjórn ASÍ núna 16. desember mjög harðlega gegn skattahækkunaráformum ríkisstjórnarinnar. Það sama gildir í raun og veru um alla þá sem ríkisstjórnin segist vera að hlífa sérstaklega, öryrkja, eldri borgara og aðra. Nú er framkvæmdastjóri ASÍ búinn að húðskamma ríkisstjórnina fyrir þessi áform og segir að þegar ríkisstjórnin kynnti sín áform hafi öll áhersla verið lögð á hið þriggja þrepa skattkerfi en ekki orði minnst á að ríkisstjórnin væri beinlínis (Forseti hringir.) að svíkja gerða samninga og það væri til skammar að ríkisstjórnin léti þess ekki getið að (Forseti hringir.) hún væri að afnema þessa mikilvægu verðtryggingu.

Mig langar til að heyra hæstv. félagsmálaráðherra gera grein fyrir því (Forseti hringir.) hver viðbrögð hans eru við þessari hörðu gagnrýni ASÍ sem fram hefur komið í vikunni, (Forseti hringir.) ekki síst vegna þess að hann var á fundi með þeim og fjölmiðlum um daginn að berja þeim baráttuanda í brjóst.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörk.)