138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

skattaáform ríkisstjórnarinnar.

[10:40]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hægt að hafa mörg orð um þær athyglisverðu reikningskúnstir sem sjálfstæðismenn hafa lagt fram á síðustu dögum til að reyna að halda því fram að skattbreytingar ríkisstjórnarinnar núna bitni einkanlega á þeim sem síst skyldi. Grundvallarforsendan í öllum þeim talnaleik er sú að menn gefa sér að núverandi ástand geti haldið áfram. Allir vita að það vantar eina krónu af hverjum fimm og einnig að Sjálfstæðisflokkurinn veikti svo tekjugrundvöll ríkissjóðs þegar hann fór með stjórn ríkisfjármála að strax á árinu 2005 spáði fjármálaráðuneyti Sjálfstæðisflokksins því að á árinu 2008, fyrsta venjulega árinu eftir uppsveiflu vegna stóriðjuframkvæmda, mundi verða halli á ríkissjóði. Með öðrum orðum, Sjálfstæðisflokkurinn var búinn að veikja svo tekjugrundvöll ríkissjóðs (Gripið fram í: Svaraðu spurningunni.) strax á árinu 2005 að hann sá ekki fram á að geta rekið ríkissjóð í einu meðalári án taps. (Gripið fram í.) Við erum auðvitað að taka á því máli núna. (Gripið fram í: Hvað með ASÍ?)

Skattbreytingarnar sem ríkisstjórnin hefur kynnt núna verja hag þeirra sem lakast standa. Það er ótvírætt. Það er alger bernska að gefa sér að hægt sé að nota sem útgangspunkt að óbreytt ástand sé sjálfsagt. Það sem við höfum gert og Alþýðusambandið hefur lýst sérstakri ánægju með er skattkerfi þar sem við verjum sérstaklega hag láglaunafólks, sérstaklega hag þeirra sem eru með undir 200 þús. kr. á mánuði og koma betur út úr nýju skattkerfi en óbreyttu kerfi.

Alþýðusambandið hefur gagnrýnt að ekki er gert ráð fyrir í áætlunum núna að verðtryggingin á árinu 2011 skili sér inn. Ágreiningurinn núna stendur um það og Alþýðusambandið hefur gagnrýnt þetta. Það verður auðvitað útfærsluefni á næsta ári þegar unnið verður að nýju skattkerfi hvernig því verður fyrir komið og hvort verðtrygging persónuafsláttar verði sú leið sem farin verði eða einhver önnur leið (Forseti hringir.) til að mæta kjörum láglaunafólks.