138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

vinna við aðildarumsókn að ESB.

[10:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að einmitt landbúnaður og sjávarútvegur séu þær atvinnugreinar sem við horfum hvað sterkast til í að skapa atvinnu og gjaldeyri, tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar o.s.frv. Ég tel að allt sem við gerum, bæði til skamms tíma og lengri tíma, eigi að miða að því að styrkja grunn þessara atvinnugreina og stöðu þeirra í samfélaginu. Ég beiti mér fyrir því og vona að ég eigi stuðning hv. þm. Péturs Blöndals í þeim efnum.

Það er hárrétt að ég greiddi atkvæði gegn því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Sú skoðun mín er óbreytt, við eigum ekkert erindi þangað. Það er sjálfsagt að eiga gott samstarf við allar þjóðir um samninga, Evrópusambandsþjóðir sem aðrar. Hins vegar var þetta meirihlutaákvörðun Alþingis um að umsóknin skyldi send og þá þurfa ráðuneyti eins og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið að sinna vinnu sem Alþingi hefur í sínum samþykktum falið ráðuneytinu í þeim efnum. Ég hef sagt að ég og mitt ráðuneyti munum reyna að inna þær skyldur sem best af hendi þannig að sú vinna sem kallað er eftir í þeim efnum sé unnin. Hún er býsna mikil.

Eitt af því sem ég hef beitt mér fyrir líka í þessum efnum er að þau gögn sem koma inn til ráðuneytisins, spurningar, svör eða önnur formleg gögn, verði þýdd og almenningi (Forseti hringir.) aðgengileg þannig að upplýsingagjöfin og fagvinnan verði sem (Forseti hringir.) best.