138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[11:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Magnús Orri Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir meirihlutaáliti efnahags- og skattanefndar í þeim tveimur málum sem við ætlum að fjalla hér um saman.

Engum dylst mikilvægi þess að örva nýsköpun og efla þannig samkeppnishæfni og verðmætasköpun í atvinnulífinu og því ber að lofa þetta framtak ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Þetta hagsmunamál hefur oft komið á dagskrá þingsins en nú sjáum við fyrir að það verði að veruleika að styðja betur við nýsköpun hér á landi. Sérstaklega er þetta mikilvægt á tímum efnahagsþrenginga sem þjóðin hefur þurft að glíma við á undanförnum mánuðum. Hér gefst okkur tækifæri til að örva vöxt á öllum sviðum íslensks atvinnulífs og stuðla að verðmætaaukningu í íslenskum þjóðarbúskap með sköpun nýrra atvinnutækifæra og er það vel.

Hér er um tvenns konar breytingar að ræða. Annars vegar er lagt til að nýsköpunarfyrirtækjum sem taka á sig kostnað vegna rannsóknar- og þróunarverkefna verði að greindum skilyrðum heimilt að draga tiltekið hlutfall kostnaðarins frá álögðum tekjuskatti. Hér er um að ræða skattfrádrátt. Mikilvægt er að hafa í huga að þá er skattfrádrátturinn greiddur út sem skattfrjáls styrkur ef hann gengur ekki upp í álagðan tekjuskatt eða skuldajöfnun á ógreiddum opinberum gjöldum. Þannig er eingöngu hægt að nýta sér rekstrartap sem fallið hefur til eftir að fyrirtæki hefur hlotið staðfestingu Rannís á að fá þennan skattfrádrátt greiddan út.

Hins vegar er lagt til að einstaklingum og lögaðilum verði heimilt að greindum skilyrðum að draga frá tekjuskattsstofni kostnað vegna kaupa á hlutabréfum útgefnum af nýsköpunarfyrirtækjum, svokallaðan skattafslátt vegna hlutafjáraukningar. Það er mikilvægt að hafa í huga að ákvæði þessa frumvarps koma ekki til framkvæmda fyrr en það hefur fengið staðfestingu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að hér sé um að ræða lögmæta ríkisaðstoð.

Það hefur því verið einkennandi fyrir þessa vinnu að menn telja rétt að stíga varlega til jarðar enda mikilvægt að fá þessa staðfestingu. Hér er verið öðrum þræði að skilgreina hvers konar fyrirtæki geta hlotið staðfestingu Rannís til að hljóta annars vegar hlutafjáraukningu og hins vegar skattfrádrátt en ekki er um sömu skilyrðin að ræða. Lögaðili á þess kost að sækja um hvort tveggja en þessi skilyrði falla ekki saman.

Umsagnaraðilar voru almennt mjög jákvæðir í garð frumvarpsins og voru á þeim nótum að efling rannsókna og þróunarstarfs væri forsenda fyrir öflugt atvinnulíf og um það getum við öll verið sammála að ég held.

Við umfjöllun nefndarinnar var bent á þörfina fyrir að skilyrði frumvarpsins fyrir staðfestingu Rannís væru skýr og hlutlæg og enn fremur að orðskýringar veittu stofnuninni leiðsögn um hvort skilyrðin væru uppfyllt. Huga þyrfti vel að því hvað átt væri við með lykilhugtaki eins og „nýsköpun“ en markmið frumvarpsins er að auka nýsköpun.

Aðilar bentu á að tilgangur frumvarpsins væri ekki að niðurgreiða hvers konar breytingar sem horfðu til framfara innan fyrirtækja heldur að efla nýsköpun á sviði rannsókna. Hlutverk Rannís í skilgreiningarferlinu væri því ekki óeðlilegt. Meiri hlutinn vill leggja áherslu á að það er mikilvægt að fulltrúar annarra aðila en Rannís fái að taka þátt í staðfestingarferlinu eða gerð verklagsreglna sem liggja staðfestingarferlinu til grundvallar. Þannig leggur meiri hlutinn áherslu á að verklagið verði ákveðið í samráði við helstu hagsmunaaðila og stofnanir á þessu sviði, svo sem rannsóknarstofnanir á sviði nýsköpunar hér á landi, og þess verði gætt að umsóknarferlið verði einfalt, skýrt, hlutlægt og hraðvirkt. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga enda lögðu umsagnaraðilar nokkra áherslu á þetta.

Það kom einnig fram fyrir nefndinni að áhyggjuefni þótti að skilyrði skattfrádráttar kynnu að vera of íþyngjandi og stæðu í vegi fyrir því að smærri þekkingarfyrirtæki nytu góðs af frumvarpinu. Talsmenn þeirra lögðu því áherslu á að lækka fjárhæðina í 2. tölul. 5. gr. frumvarpsins en greinin setur það sem skilyrði staðfestingar að lögaðili hafi varið a.m.k. 20 millj. kr. árlega til rannsókna og þróunar. Þetta eru réttmætar ábendingar að mati meiri hluta nefndarinnar og leggur meiri hlutinn til að fjárhæðarmörkin lækki í 5 millj. kr. Einnig leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingu á 3. tölul. 5. gr. frumvarpsins (mál nr. 82) til að opna frekar fyrir möguleika ungra fyrirtækja sem ekki hafa aðstöðu til mikilla rannsóknarstarfa á að hljóta umræddan skattfrádrátt.

Meiri hluti nefndarinnar kemur því með breytingartillögu sem orðist svo:

„Sem skilyrði fyrir skattfrádrætti þurfa starfsmenn fyrirtækisins að hafa þjálfun, menntun eða reynslu á því sviði sem hugmynd að virðisaukandi vöru eða þjónustu byggist á.“

Hér er sem sagt verið að opna skilgreininguna frekar, bæði hvað varðar peningafjárhæð sem verja þarf til rannsókna úr 20 milljónum niður í 5 og um leið að opna fyrir þau fyrirtæki sem eru kannski nýstofnuð og hafa ekki byggt upp mikla aðstöðu til rannsóknarstarfa svo þau geti þá um leið hlotið þennan stuðning. Þá er fyrst og fremst verið að horfa til þess að starfsmenn hafi þjálfun, menntun eða reynslu á því sviði sem viðskiptahugmynd fyrirtækisins eða vörunnar byggist á. Hér erum við að einhverju leyti að koma til móts við áhyggjur hagsmunaaðila, svo sem t.d. Bændasamtaka Íslands, svo ég vitni í umsögn þeirra en þeir sögðu að ef takmarkanirnar yrðu jafnstífar og þær voru, og ég vitna beint, frú forseti:

„Litlu aðilarnir sem eru að brydda upp á nýjungum til þess að skapa fólki í dreifbýli einhverja atvinnu utan hinna hefðbundnu búgreina, fá samkvæmt frumvarpinu ekki skattafslátt. Það eru ekki mörg fyrirtæki í dreifbýli sem hafa 20 milljónir milli handanna til þróunarvinnu á hverju 12 mánaða tímabili.“

Bændasamtökin nefna svo dæmi um nokkrar viðskiptahugmyndir sem hefðu ekki fengið styrk, og ég held áfram tilvitnun minni, frú forseti:

„Sem dæmi um nýsköpun í landbúnaði sem er útilokuð er frá skattafslætti miðað við þessa tillögu er t.d.: Þróun tengd uppbyggingu markaðs fyrir innlent bygg, þróun nýrra framleiðsluvara í heimavinnslu, nýsköpun tengd nýtingu á kjötafurðum og þróun sölulegra afurða úr hlunnindanytjum á bújörðum.“

Með þessi sjónarmið í huga ákvað meiri hluti efnahags- og skattanefndar að leggja til ákveðnar breytingar á þessu frumvarpi.

Einnig var rætt fyrir nefndinni hvort heimila ætti skattafslátt til hlutafjárkaupa, ekki aðeins þegar um beina fjárfestingu væri að ræða í nýsköpunarfyrirtæki, eins og frumvarpið hljóðar, heldur einnig þegar keypt væri hlutdeild í sjóði sem fjárfesti í slíkum fyrirtækjum. Færð voru rök fyrir því að sjóðirnir mundu auðvelda aðgengi fyrirtækjanna og draga úr áhættu fjárfesta vegna þessara viðskipta en þau væru í eðli sínu áhættusöm. Þó nokkuð var fjallað um þetta atriði í nefndinni en meiri hlutinn telur eins og áður segir að stíga þurfi varlega til jarðar í þessu sambandi.

Þá komu fram sjónarmið fyrir nefndinni sem voru sannfærandi í þá veru að þarna gætum við átt það á hættu að þeir fjármunir sem væru hugsaðir til fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum til hlutafjáraukningar mundu ekki nýtast með þeim hætti. Svo ég vitni í athugasemdir frá ríkisskattstjóra, frú forseti, en þar segir:

„Vandséð er hvernig það eigi að virka þegar um er að ræða fjárfestingu í sjóði þegar forsendur frádráttar eru milliliðalaus kaup á hlutabréfum nýsköpunarfyrirtækis. Vart er unnt að líta á kaup í sjóði sem hlutafjáraukningu eða óbeint í nýsköpunarfyrirtæki sem sjóðurinn fjárfestir í.“

Sökum þessa álitaefnis taldi meiri hlutinn ekki rétt að opna fyrir sjóðina núna en það er skoðun þess sem hér stendur að til þess að við getum styrkt viðskipti með hlutabréf á Íslandi og aukið aftur tiltrú fjárfesta á því að versla með hlutabréf í fyrirtækjum þurfum við að leggja miklu meiri vinnu í það að skoða með hvaða hætti við getum aukið viðskipti með hlutabréf í nýsköpunarfyrirtækjum. Við þurfum að gæta að því að treysta regluverkið og auka trú bæði fyrirtækjanna og ekki síður fjárfestanna.

Eins og áður segir var af hálfu fjármálaráðuneytisins lagst gegn því að heimila skattafslátt vegna fjárfestingar í sjóðum þar sem skatteftirlit væri ekki undir það búið og í því efni var vísað til fyrri reynslu af skattafslætti vegna hlutafjárkaupa. Jafnframt benti ráðuneytið á, og það hefur kannski verið rauði þráðurinn í þessari vinnu hjá okkur nú, að ef frumvarpið yrði að lögum kæmu þau til endurskoðunar að tveimur árum liðnum, þ.e. menn vilja stíga varlega til jarðar fyrsta skrefið í mikilvægri stefnumörkun af hálfu ríkisins en mikilvægt er að við lítum á þessa lagasetningu sem lifandi plagg að því leyti að við viljum skoða með hvaða hætti við getum stutt sem best við nýsköpun í landinu og þess vegna skoða skilgreiningar, annmarka og aðrar hugmyndir sem lúta að því að styrkja nýsköpunina og þess vegna þurfi þetta að vera að því leyti til lifandi plagg. Við þurfum að fylgjast vel með þróun nýsköpunar verði frumvarpið samþykkt. Til dæmis telur meiri hlutinn mjög nauðsynlegt og vill leggja á það áherslu í sínu nefndaráliti að við mat á því hvort umsókn lögaðila fullnægi skilyrðum til hlutafjáraukningar verði hugað sérstaklega að vernd fjárfesta og þá með þeim almenna fyrirvara að fjárfesting í nýsköpun sé í eðli sínu áhættusöm.

Frú forseti. Hér hef ég reifað þau atriði sem meiri hluti efnahags- og skattanefndar vill leggja áherslu á. Við lofum þetta framtak ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar. Hér er verið að taka gott skref, við getum deilt um hvort þetta sé nógu stórt skref en þetta er gott skref í rétta átt, því að stjórnmálamenn hér á landi hafa í gegnum tíðina margoft minnst á það, án þess að því hafi kannski fylgt aðgerðir, að mikilvægt væri að hlúa að nýsköpun og þessar leiðir, þ.e. að opna fyrir skattfrádrátt annars vegar og opna fyrir hlutafjáraukningu í nýsköpunarfyrirtækjum hins vegar, væru góðar leiðir til þess.

Að lokum vil ég segja að mikilvægt er að frumvarpið, verði það samþykkt, komi til endurskoðunar að ekki allt of löngum tíma liðnum vegna þess að hér er um að ræða samstarfsverkefni á milli löggjafans, framkvæmdarvaldsins, nýsköpunarfyrirtækja, Kauphallar og fleiri um að styrkja nýsköpun í landinu með þeim tólum sem hér er verið að leggja til og ekki síður að horfa til þess að styrkja hlutabréfamarkað í landinu.

Fram kom í greinargerð með frumvarpinu að líklegur stuðningur við nýsköpun hér á landi væri á bilinu 1.200–1.500 millj. kr. en það var áður en við fórum inn og opnuðum fyrir skilgreiningu og lækkuðum viðmiðunarfjármuni þannig að ljóst er að stuðningurinn verður líklega mun meiri en 1.200–1.500 milljónir.

Að lokum óska ég eftir því að mál þetta fái meðhöndlun í þinginu eins og vera ber.